Á flótta undan hitabeltisstormi á Taílandi

Hanna Kristín Steinarsdóttir (t.h.) og Hlín Axelsdóttir (t.v.).
Hanna Kristín Steinarsdóttir (t.h.) og Hlín Axelsdóttir (t.v.). Ljósmynd/Hlín Axelsdóttir

„Það var hræðilegt í sjóinn og báturinn var á hliðinni alla leiðina,“ segir Hlín Axelsdóttir sem var stödd á eyjunni Koh Tao þegar óveður brast þar á í gær. Tugir þúsunda ferðamanna hafa flúið taílensku eyjarnar Koh Tao og Koh Phangan síðan tilkynnt var að hitabeltisstormurinn Pabuk muni skella á þeim á morgun. Stormurinn mun hafa í för með sér mikla rigningu, vind og sjö metra háar öldur.

Hlín var stödd á Koh Tao með vinkonu sinni, Hönnu Kristínu Steinarsdóttur, en þær eru á ferðalagi um Asíu. Þær fóru í snorklferð í gær og þá fundu þær að það var ekki allt með felldu þar sem það var orðið svo hvasst að það var ekki hægt að heimsækja þá staði sem áætlað hafði verið.

Ómögulegt að komast frá eyjunni næstu fjóra daga

„Þegar við komum svo upp á hótel í gærkvöldi var okkur tilkynnt að allar ferjur næstu fjögurra daga væru lagðar niður og að það væri ekki möguleiki að komast frá eyjunni. Ekki var vitað hversu stór stormurinn yrði,“ segir Hlín.

Algjör ringulreið var í Koh Tao þegar fólk hafði áttað sig á því hvað um væri að vera og fólk kepptist um að komast um borð í ferjur frá eynni.

Aðbúnaðurinn í ferjunni sem stelpurnar fóru með frá Koh Tao.
Aðbúnaðurinn í ferjunni sem stelpurnar fóru með frá Koh Tao. Ljósmynd/Hlín Axelsdóttir

„Þar sem allt var fullt í báta í gærkvöldi var fólk farið að planta sér á bryggjuna og ætlaði að gista þar í von um að komast á biðlista í seinustu ferðina frá eyjunni. Við náðum að redda okkur plássi á gólfinu á pappakassa í bílageymslunni með næturferju til Chumphon. Ferðin tók sex klukkustundir,“ segir Hlín.

Kastaði upp í fjórar klukkustundir

Báturinn var yfirfullur og það var ekki hægt að fara út á þilfar vegna veðursins. Hlín segir að ferðin frá Koh Tao hafi verið slæm. „Ég varð mjög sjóveik og kastaði upp samfleytt í fjórar klukkustundir.“

Nú eru Hlín og Hanna staddar í Chumphon sem er skammt frá Koh Tao. Óveðrið hefur ekki skollið á þar en það er þó búist við því og íbúar þar farnir að gera ráðstafanir. Stelpurnar eiga bókað flug til Bangkok í dag en það eru ekki allir svo heppnir. „Við áttum sem betur fer bókað flug en það er allt uppbókað núna. Allar samgöngur til norðurs, til dæmis til Bangkok, eru uppbókaðar.“

Hlín segir að Koh Tao sé æðislegur staður en ekki …
Hlín segir að Koh Tao sé æðislegur staður en ekki í óveðri sem þessu. Ljósmynd/Hlín Axelsdóttir

Fyrsti hitabeltisstormurinn í þrjátíu ár

Það er þó enn óvíst hvort hægt verði að fljúga frá Chumpon en stelpurnar vona það besta. Þær eru á heimleið og eru orðnar mjög spenntar fyrir að komast til Íslands. „Þetta er æðislegur staður en í svona er ekki gaman að vera hérna,“ segir Hlín.

Bæði Koh Tao og Koh Phangan eru mjög vinsælar á meðal ferðafólks, sérstaklega yfir jól og áramót. AFP greindi frá því í morgun að 30 til 50 þúsund manns hafi yfirgefið eyjarnar síðan á nýársdag. Hitabeltisstormurinn Pabuk er fyrsti hitabeltisstormurinn í þrjátíu ár sem skellur á í Taílandi utan regntímabilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert