„Engin takmörk fyrir heimskunni“

Prager segir að hann og nettröllið Christopher Blair beini skrifum …
Prager segir að hann og nettröllið Christopher Blair beini skrifum sínum að stuðningsmönnum Trumps. AFP

John Prager vefur sér fyrstu sígarettu dagsins og gerir sig kláran til að semja fyrstu lygafrétt dagsins. Hann hefur tekjur sínar af hægri öfgasíðum sem hann heldur úti. Danska ríkisútvarpið DR ræðir við Prager.

Prager situr í hálfrökkvuðu herbergi  og horfir á tvo tölvuskjái. Á öðrum þeirra fylgist hann með athugasemdum lesenda á hægri öfgafréttaveitunni Breitbart og á hinum skjánum blasir við skapalón fyrir fréttina sem hann er að semja fyrir vefinn Americas Last Line of Defence, vefsíðu sem gefur sig út fyrir að vera síðasta víglína íhaldsmanna í baráttunni gegn innflytjendum og sósíalisma.

Finnur inntak falsfréttanna í athugasemdakerfinu

Þetta er ekki eini vefurinn sem Prager heldur úti, því hann er með fjölda annarra vefsíðna þar sem hann birtir stöðugan straum falsfrétta. Prager veit vel hvað þarf til að fá fólk til að smella á fréttirnar. Þær þurfa að vera æsifengnar og innihalda eina til tvær staðreyndir í bland við fáránlegar fullyrðingar sem Prager finnur upp á sjálfur, oft með því að nýta sér athugasemdakerfi líkt og hjá Breitbart.

Falsfréttirnar fjalla svo ýmist um glæpamenn úr hópi innflytjenda, hótanir um herta vopnalöggjöf, Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, eða Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðanda og utanríkisráðherra, sem bæði eru í ónáðinni hjá hægri öfgamönnum. Svo er einnig fjallað um áætlanir Donald Trumps Bandaríkjaforseta um múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

„Fólk ætti ekki að kunna að meta svona efni. Það ætti virkilega ekki að gera það. Það ætti ekki að koma hlaupandi að lesa síðuna okkar,“ hefur danska ríkisútvarpið DR eftir Prager. „Við óskum þess það væri nógu skynsamt til að horfa fram hjá þessu, en það er það ekki.“

Lögregla á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Múrinn sem Donald Trump …
Lögregla á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Múrinn sem Donald Trump Bandaríkjaforseti vill reisa á landamærunum er vinsælt viðfangsefni í falsfréttum Pragers. AFP

Fox komist upp með falsfréttir árum saman

Prager segir peninga ekki ástæðu þess að hann skrifi falsfréttir, jafnvel þó að hann fái andvirði allt að 2,4 milljóna íslenskra króna í auglýsingatekjur af Facebook-síðu sinni í góðum mánuði.

Sjálfur segir hann ástæðu skrifanna vera „pólitíska“ og lýsir sér sem vinstri manni.

Segist Prager áður hafa skrifað löng pólitísk innlegg á hinum ýmsu bloggsíðum og hafa uppskorið lítinn lestur. Á sama tíma sá hann hvernig fréttasíður á hægrivængnum kveiktu í lesendum sínum með greinum sem byggðu á litlum staðreyndum.

„Fréttastofa Fox hefur komist upp með falskar fréttir árum saman og enginn hefur reynt að stoppa þá. Þetta verður bara verra og verra. Þeir áttuðu sig svo á að þeir geta sagt fólki hvað sem er og það trúir því. Það er þetta sem er upphaf vandans,“ útskýrir Prager.

Hræðsluáróður um herta vopnalöggjöf kemur fyrir í fjölda falsfrétta Pragers.
Hræðsluáróður um herta vopnalöggjöf kemur fyrir í fjölda falsfrétta Pragers. AFP

„Samansafn heimskustu einstaklinga sem maður getur ímyndað sér

Prager segist því hafa, ásamt nettröllinu Christopher Blair, ákveðið að birta það sem þeir telji dæmi um hatur og fordóma hjá pólitískum andstæðingum sínum. „Fyrst beindum við orðum okkar að íhaldsmönnum almennt og svo að stuðningsmönnum Trumps,“ útskýrir hann. „Það er samansafn heimskustu einstaklinga sem maður getur ímyndað sér og þeim er fullkomlega sama um staðreyndir. Það er það sem ég er að reyna að sýna með falsfréttum mínum. Ég vil sýna fram á að almennt er bandarískum íhaldsmönnum slétt sama um staðreyndir, svo lengi sem lygarnar gagnast hatri þeirra og fordómum.“

Þó að Prager segist hugsa síðu sína Americas Last Line of Defense sem háðsádeilu og ekkert sem þar er birt sé satt, eru engu að síður víða vísað í greinarnar sem hann birtir þar og þeim deilt víða. Í desember á síðasta ári náði síðan til 1,2 milljóna manna í gegnum Facebook.

Fjöldi falsfréttanna endaði á öðrum fréttavefjum og var jafnvel vísað til þeirra í bandarísku sjónvarpi og segir DR bæði Fox og ABC-fréttastofuna hafa birt falsfréttir sem frá Prager.

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er oft viðfangsefni falsfrétta, enda hægri …
Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er oft viðfangsefni falsfrétta, enda hægri öfgamenn þar í landi margir ósáttir við hann. AFP

Glæpamenn á skólabekk með 14 ára börnum

DR fylgdist með er Prager nýtti fullyrðingu í athugasemdakerfinu um að liðsmaður suðuramerísks glæpagengis hefði laumast inn í landið með hópi barna. 

Fréttina byrjar hann eins og vanalega á orðunum „Breaking“ og Prager hlær með sjálfum sér er hann skrifar að í forsetatíð Obamas hafi fullorðnir liðsmenn gengis frá Mið-Ameríku komist inn í landið og setið á skólabekk með 14 ára bandarískum börnum. Nú sé hins vegar búið að handtaka þá fyrir margvíslega glæpi.

„Lögregla fann vopn, efni til sprengjugerðar og mikið magn fóstureyðingarlyfja sem ætluð voru á svarta markaðinn,“ skrifar hann og býr því næst til nokkra heimildamenn áður en hann birtir fréttina sem, að sögn Pragers, milljónir Bandaríkjamanna á hægri vængnum munu lesa.

„Ég held að þeir hafi þörf fyrir að fá sýn sína á innflytjendur staðfesta. Þannig að þeir finna vefsíður eins og okkar sem tala illa um innflytjendur. Svo „líka“ þeir við fréttina og senda hana til vina sinna og kunningja,“ segir hann.

„Fólk vill trúa þessu. Það er vandinn og það er ekki útlit fyrir að vandinn leysist í bráð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert