Gefa út ákæru á hendur Huawei og Meng

Wilbur Ross, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, greinir frá ákærunum á hendur Huawei …
Wilbur Ross, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, greinir frá ákærunum á hendur Huawei og Meng. AFP

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur gefið út ákæru í 13 liðum á hendur kínverska raftækjafyrirtækinu Huawei og Meng Wanzhou, fjármálastjóra og dóttur stofnanda fyrirtækisins.

Ákærurnar felast meðal annars í fjársvikum, þjófnaði á hugverki í eigu bandaríska fyrirtækisins T-Mobile og hindrun gegn framgangi réttvísinnar. Forsvarsmenn fyrirtækisins og Meng neita sök.

Meng var handtekin í Kanada í desember, að ósk bandarískra yfirvalda, og jók það á spennuna í sambandi Bandaríkjanna og Kína.

Wilbur Ross, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, fullyrðir að ákærurnar tengist ekki með neinum hætti viðskiptastríði Bandaríkjanna og Kína þar sem stífar samningaviðræður standa nú yfir.

Ríkissaksóknari í Bandaríkjunum mun fara fram á að Meng verði framseld til Bandaríkjanna fyrir lok mánaðarins. Fyrirtaka í málinu fer fram 6. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert