„Ég mun aldrei gleyma“

„Ég mun aldrei gleyma,“ segir Bissa en hún er ein þeirra fjölmörgu jazída-kvenna sem lenti í klónum á vígamönnum Ríkis íslams í Írak. Hún er ein sjö jazída-kvenna sem náðu loks að flýja úr haldi Ríkis íslams í síðustu viku.

Bissa, sem er fertug að aldri, gekk kaupum og sölum og var í „eigu“ sex mismunandi vígamanna þar sem henni var haldið sem kynlífsþræl árum saman.

Bissa er fertug að aldri en undanfarin ár hefur hún …
Bissa er fertug að aldri en undanfarin ár hefur hún gengið kaupum og sölum milli vígamanna. AFP

„Við gerðum allt sem þeir vildu. Við gátum ekki neitað,“ segir Bissa. Hún ræddi við fréttamann AFP á verndarsvæði sem er núna undir yfirráðum hersveita sem eru undir stjórn Bandaríkjamanna. Auk hennar eru þar sex aðrar konur sem einnig náðu að flýja, þar á meðal unglingsstúlka sem var aðeins þrettán ára gömul þegar hún var handtekin af vígamönnum. Þeirra heitasta ósk er að komast heim aftur.

„Þeir sváfu hjá okkur þrátt fyrir andstöðu okkar,“ segir Bissa en yfir 36 þúsund manns hafa flúið af svæðum sem eru undir yfirráðum Ríkis íslams við landamæri Íraks og Sýrlands undanfarnar vikur. Meðal þeirra sem eru á flótta eru 3.200 vígamenn. 

Saga jazída er þyrnum stráð en árið 2014 réðust vígasamtökin Ríki íslams til atlögu gegn þeim í Sýrlandi og Írak, ekki síst í Sinjar-héraði í norðurhluta Íraks þar sem fjölmargir jazídar bjuggu.

Á flótta undan vígasveitum Ríkis íslams.
Á flótta undan vígasveitum Ríkis íslams. AFP

Ein þeirra er Nadia Murad, sem sætti kynferðisofbeldi liðsmanna Ríkis íslams í Írak, en hún hlaut friðarverðlaun Nóbels í fyrra fyrir baráttu þeirra gegn því að „nauðgunum sé beitt sem stríðsvopni“.

Nadia Murad er 25 ára og á meðal þúsunda stúlkna og kvenna úr röðum jazída sem liðsmenn Ríkis íslams rændu og nauðguðu í grimmilegum hernaði þeirra gegn trúarhópnum. Þeir rændu henni og hnepptu hana í ánauð eftir að þeir náðu þorpi hennar í norðvestanverðu Írak á sitt vald í ágúst 2014. Þeir drápu karlmennina sem þeir náðu, tóku börn til fanga í því skyni að þjálfa þau í hernaði og hnepptu konur í ánauð. Murad var í haldi þeirra í þrjá mánuði, gekk kaupum og sölum nokkrum sinnum og sætti hvað eftir annað barsmíðum og hópnauðgunum íslömsku öfgamannanna. „Það fyrsta sem þeir gerðu var að neyða okkur til að snúast til íslamskrar trúar. Eftir það gerðu þeir hvað sem þeir vildu við okkur,“ sagði hún.

Sabha þráir að komast heim með börn sín.
Sabha þráir að komast heim með börn sín. AFP

Alls var yfir sex þúsund jazída-konum rænt í Sinjar en að sögn Bissa voru vígamennirnir sem keyptu hana og seldu af ólíku þjóðerni, þar á meðal Svíi. Hún var beitt hrottalegu ofbeldi en var of hrædd til þess að reyna að flýja. 

Þeir sögðu að hverri þeirri sem myndi reyna flótta yrði refsað með því að vera nauðgað af nýjum manni á hverjum degi, segir hún. 

Nadine, sem er sautján ára gömul, var aðeins þrettán ára þegar henni var rænt í Sinjar. Hún reyndi tvisvar að flýja en í bæði skiptin var hún handtekin af lögreglu Ríkis íslams. 

„Þeir hýddu mig með slöngu. Ég ber ör á bakinu eftir það og ég gat ekki sofið,“ segir hún. Í seinna skiptið fékk hún heldur ekkert að borða í tvo daga. Nadine var flutt til Raqqa, höfuðvígis Ríkis íslams í Sýrlandi. Í fjögur ár gekk hún þar kaupum og sölum milli sex manna, Sádi-Araba og Túnisbúa. 

Henni var gert að afneita trú sinni og ganga í klæðnaði sem huldi hana frá toppi til táar. „Ég elska liti og var vön því að ganga í buxum,“ segir Nadine í viðtali við AFP. Hún treystir sér ekki til þess að taka niður slæðuna sem hylur andlit hennar strax. Hún segist hafa vanist því að hylja sig en hún muni taka af sér þegar hún hittir mömmu sína að nýju. 

Sabha, sem er þrítug jazída-kona, flúði ásamt sex börnum sínum af svæði sem var undir yfirráðum Ríkis íslams eftir að maðurinn, sem hún var þvinguð til að giftast, fórst í loftárás.

Fimm barna hennar eru af fyrra hjónabandi en eiginmaður hennar var drepinn af vígamönnum Ríkis íslams í Sinjar. Hún á átján mánaða gamla stúlku með kúrdískum vígamanni frá Kirkuk-héraði í Írak. Sebha segir að hann hafi gengið í skrokk á henni og hótað henni og börnunum lífláti færi hún ekki að vilja hans. „Það eina sem ég gat hugsað um var að forða mér,“ segir hún og bætir við að maðurinn hafi sagt henni að hann hafi setið í fangelsi í Bretlandi í 15 ár. 

„Ég óskaði honum dauða svo ég gæti flúið.“ Í dag bíður Sabha þess að komast heim aftur og það sem skipti hana mestu í lífinu sé að hafa getað bjargað lífi barna sinna.

AFP
AFP
mbl.is