Tekist á um heimkomu vígamanna

Jacques Le Brun, faðir Quentin.
Jacques Le Brun, faðir Quentin. AFP

Eftir að hafa beðið þess árum saman að sonur hans sneri aftur til Frakklands frá Sýrlandi á Jacques Le Brun von á að það geti orðið að veruleika innan tíðar. Le Brun á ekki von á öðru en Quentin, sem er þrítugur að aldri, verði sendur beint í fangelsi við komuna til Frakklands og segir að sonur hans eigi það væntanlega skilið.

Le Brun segir að sonur hans geri sér grein fyrir þessu en fréttamaður AFP-fréttastofunnar ræddi við Le Brun á heimili fjölskyldunnar í Labastide-Rouairoux. Le Brun segir að mestu skipti að Quentin komist á lífi aftur til Frakklands. 

Quentin fór ásamt eiginkonu og nýfæddri dóttur til Sýrlands árið 2014. Þar gekk hann til liðs við vígasamtökin Ríki íslams og kom meðal annars fram í áróðursmyndskeiði samtakanna þar sem hann sést brenna vegabréf sitt. 

Vígasamtökin hafa drepið fjölmarga Kúrda á undanförnum árum.
Vígasamtökin hafa drepið fjölmarga Kúrda á undanförnum árum. AFP

Fyrir um sex vikum frétti le Brun að sonur hans væri á svæði við Efrat-fljót sem enn er undir yfirráðum vígasamtakanna. Talið er fullvíst að hersveitir Kúrda, með stuðningi Bandaríkjamanna, hafi tekið Quentin til fanga en tímaritið Paris Match hafði upp á Quentin og fjölskyldu hans í síðasta mánuði. Vonast Le Brun til þess að fjölskyldan sé meðal þeirra 130 Frakka sem eru í haldi Kúrda í Norður-Sýrlandi og stefnt er að fari til Frakklands og réttað verði yfir þeim þar.

Frétt Paris Match

Systir Quentin segir að líf þeirra hafi breyst við fregnirnar um að hann sé á lífi og fjölskylda hans. „Áður vöknuðum við upp við það á hverjum morgni að vita ekki hvort þau væru á lífi. Það var hryllilegt.“ Quentin og kona hans eiga nú þrjú börn. 

Heimildir frönsku ríkisstjórnarinnar herma að 70-80 börn séu meðal þeirra Frakka sem eru í haldi. Einnig 15 konur en hluti þeirra er talinn hættulegur. Alls 250 franskir karlar, auk eiginkvenna og barna, eru taldir vera annars staðar í Sýrlandi. Um 300 Frakkar, sem gengu til liðs við vígasamtökin í Sýrlandi og Írak, hafa verið drepnir í bardögum undanfarin ár.

Frönsk yfirvöld hafa hingað til farið fram á að réttað yrði yfir frönskum vígamönnum í Sýrlandi eða Írak enda óttast stjórnvöld að ef þeir fái að snúa heim þá fremji þeir hryðjuverk í Frakklandi þegar þeir losna úr fangelsi þar í landi. 

Móðir þrítugrar franskrar konu, sem er í Sýrlandi ásamt fjórum börnum sínum á aldrinum tíu mánaða til níu ára, segir að það eina sem fjölskyldan vilji sé að hún fái að snúa heim og fái þar réttlát réttarhöld. Fái dóma fyrir það sem hún hafi gert, ekki dóma fyrir alla glæpi vígasamtakanna.

Eiginkonur vígamanna sem eru í al-Hol in al-Hasakeh-búðunum í Sýrlandi.
Eiginkonur vígamanna sem eru í al-Hol in al-Hasakeh-búðunum í Sýrlandi. AFP

Hún segist óttast um líf dóttur sinnar og barnabarna, að þau verði drepin áður en þau komast til Frakklands. Undanfarna mánuði hafi að minnsta kosti fjórar franskar konur verið drepnar ásamt eiginmönnum sínum og 18 börnum í loftárásum í Sýrlandi. 

JacquesLe Brun segist ekkert hafa heyrt frá frönskum yfirvöldum varðandi stöðu sonar hans og fjölskyldu. Hann segist ekki skilja þá ákvörðun Quentin að fara til Sýrlands og aðhyllast hugmyndafræði öfgasamtakanna. Quentin var byrjaður að sækja moskuna í bænum þar sem hann bjó áður en hann gekk til liðs við Artigat-hópinn sem dregur nafn sitt af þorpi skammt frá Toulouse. 

Artigat-hópurinn varð til í kringum Olivier Corel, salafista sem fæddist í Sýrlandi, sem bjó í Artigat og er grunaður um að hafa fengið hóp fólks til liðs við sig þegar hann starfaði í moskunni þar. Þeirra á meðal er Mohamed Merah sem var skotinn til bana af lögreglu eftir að hafa myrt sjö í Toulouse árið 2012. Meðal hinna látnu voru þrjú gyðingabörn og rabbíni.

Albert Chennouf-Meyer, faðir eins af fórnarlömbum Merah, hefur beðið forseta Frakklands,  Emmanuel Macron, um að hafna því að vígamennirnir fái að snúa aftur. Í bréfi sem hann skrifaði Macron og fréttamenn AFP fengu að sjá í gær kemur fram að Chennouf-Meyer muni gera allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir að fólk sem beri ábyrgð á blóðsúthellingum snúi aftur. 

Le Brun segist vilja trúa því að sonur hans hafi ekki komið nálægt ofbeldisverkum og morðum sem vígasamtökin hafi tekið þátt í en það að hafa séð áróðursmyndskeiðið hafi verið þung raun. Í raun sé óhugsandi annað en að sonur  hans hafi tekið þátt í voðaverkum vígasamtakanna.

Fjölskyldan hafi lent í vandræðum vegna þessa, yngri bróðir Quentin hafi orðið fyrir einelti af hálfu skólasystkina og móðir hans misst vinnuna. Margir þorpsbúar fara ekki leynt með hvað þeim hugnast illa að hann fái að snúa aftur. Ekki síst vegna ótta fólks um að vígamennirnir fremji hryðjuverk í Frakklandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert