Barnfóstra sökuð um pyntingar

AFP

Áströlsk yfirvöld hafa handtekið barnfóstru sem hefur búið í landinu í meira en þrjá áratugi. Handtakan er að beiðni yfirvalda í Chile sem hafa óskað eftir því að hún verði framseld vegna gruns um að hún hafi tekið þátt í mannránum og pyntingum í valdatíð Pinochet.

Adriana Rivas, sem er með chileskt ríkisfang, var handtekin í Chile árið 2007 þegar hún var þar í heimsókn en flúði aftur til Ástralíu árið 2010 þegar hún var laus gegn tryggingu. 

Talið er að hún hafi starfað í leyniþjónustu einræðisherrans Augusto Pinochet á áttunda áratug síðustu aldar.

Rivas var handtekin í gær að sögn talsmanns ríkissaksóknara í Ástralíu og á hún yfir höfði sér saksókn í Chile fyrir mannrán og fleiri brot.

Pinochet fæddist 25. nóvember 1915 og lést 10. desember árið 2006. Pinochet komst til valda árið 1973 eftir byltingu hersins gegn Salvador Allende forseta. Byltingarmenn nutu stuðnings Bandaríkjanna á ýmsan hátt þótt Bandaríkin væru opinberlega á móti byltingunni. Pinochet er talinn hafa pyntað um 30.000, tekið um 80.000 manns til fanga og látið myrða 1.200-3.200 manns, þar á meðal konur og börn.

Yfirvöld í Chile fóru fram á framsal Rivas árið 2014 en hún hefur unnið sem barnfóstra í Sydney sem og við ræstingar. Í viðtali við áströlsku sjónvarpsstöðina SBS árið 2013 sagðist Rivas vera saklaus en varði það að yfirvöld í Chile hafi pyntað fólk á sínum tíma. „Það varð að brjóta fólk niður. Þetta var gert alls staðar í heiminum, ekki bara í Chile,“ sagði hún í viðtalinu.

Augusto Pinochet var einræðisherra í Chile.
Augusto Pinochet var einræðisherra í Chile. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert