Trump: „Mig dreymir um Biden“

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Joe Biden vera draumamótframbjóðanda sinn.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Joe Biden vera draumamótframbjóðanda sinn. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, vera sinn draumamótframbjóðanda í forsetakosningunum 2020. Trump lét þessi orð falla í viðtali við fréttastofu CNN-sjónvarpsstöðvarinnar er hann var spurður hverja hann teldi verða mótherja sína úr Demókrataflokknum í forsetakosningunum.

„Mig dreymir um Biden,“ sagði Trump, en Biden hefur sagt að hann muni láta vita fyrir janúar á næsta ári hvort hann gefi kost á sér. „Joe Biden gaf kost á sér í þrígang og fékk aldrei meira en eitt prósent. Obama forseti hirti hann svo af ruslahaugnum og allir voru í áfalli yfir að hann gerði það,“ bætti forsetinn við.

„Ég vildi gjarnan að það væri Biden,“ sagði Trump svo, en kvaðst þó telja sig verða sáttan við að mæta hverjum sem væri úr hópi 7-8 frambjóðenda demókrata sem hvað líklegastir séu til að fá tilnefningu. „Ég væri til í að mæta hverjum sem þeirra sem er.“

Trump sagði því næst að Biden hefði aldrei getað gert neitt einn síns liðs.

CNN leiðrétti svo í frétt sinni þau orð forsetans að Biden hefði gefið kost á sér í þrígang. Rétt sé að hann hafi gefið tvisvar kost á sér.

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, hefur sagt að hann muni tilkynna …
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, hefur sagt að hann muni tilkynna fyrir janúar á næsta ári hvort hann gefi kost á sér. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert