Skógareldar í 29 stiga hita

Barist við skógareldana á Spáni.
Barist við skógareldana á Spáni. AFP

Slökkviliðsmönnum varð í dag nokkuð ágengt í baráttu sinni við skógarelda á norðvestanverðum Spáni. Óvenjuhlýtt hefur verið í veðri á þeim slóðum. Í dag lægði loks vind og gekk slökkvistarfið því betur en síðustu daga. 

Hundruð slökkviliðs- og hermanna berjast við eldana. Til verksins eru m.a. notaðar sjö þyrlur og fimm flugvélar sem losa vatn yfir þeim svæðum þar sem eldarnir eru mestir. 

Skógareldarnir kviknuðu á mánudag í nágrenni þorpsins San Xoan de Laino. Tveir skólar voru rýmdir í gær þar sem eldurinn nálgaðist byggðina hratt. Nú er búið að hemja útbreiðsluna svo íbúabyggð er ekki lengur talin í hættu. 

Talið er líklegast að eldarnir hafi kviknað frá neista úr háspennulínu. Hvassviðri hafi svo orðið til þess að þeir blossuðu hratt upp og breiddust út. Um 850 hektarar lands hafa brunnið. Miklir skógareldar kviknuðu einnig á þessu svæði í október árið 2017. 

Óvenjuhlýtt hefur verið á Norður-Spáni síðustu daga. Í dag er gert ráð fyrir að hitinn nái 29°C í Galicia-héraði sem er vaxið miklum eikar- og furuskógum. Þar er einnig að finna stóra akra gúmmítrjáa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert