Jafnaðarmenn lýsa yfir sigri

Antti Rinne fagnar í kvöld.
Antti Rinne fagnar í kvöld. AFP

Jafnaðarmannaflokkurinn var sigurvegari æsispennandi þingkosninga í Finnlandi en flokkurinn hlaut 17,7% atvkæða. Fast á hæla þeirra fylgdi þjóðernissinnaði Finnaflokkurinn, sem hlaut 17,5% atkvæða.

Antti Rinne, leiðtogi jafnaðarmanna, hefur lýst yfir sigri. Hefð er fyrir því að stærsti flokkur landsins fái umboð til að mynda ríkisstjórn. Takist Rinne að mynda vinstristjórn yrði það fyrsta stjórnin til vinstri í landinu í 16 ár.

Samstöðuflokkurinn og Miðflokkurinn tapa fylgi en sá fyrrnendi hlaut 17% atkvæða. Miðflokkurinn tapaði miklu fylgi en hann hlaut 13,8% atkvæða og tapar 18 þingsætum. 

Vinstriflokkurinn hlaut 8,2%, Sænski þjóðarflokkurinn 4,6%, Kristilegir demókratar 3,9%, Bláa framtíðin 1% og aðrir flokkar hlutu samstals 5%.

Juha Si­pilä, leiðtogi Miðflokksins og væntanlega fráfarandi forsætisráðhera, sagði niðurstöðuna vonbrigði. Hann sagði ljóst að erfitt verk væri fram undan að mynda starfhæfa ríkisstjórn en flestir flokkanna hafa útilokað samstarf með Finnaflokknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert