Laga götur Rómar án leyfis yfirvalda

Horft yfir ána Tíber í miðbæ Rómar í rökkrinu. Liðsmenn …
Horft yfir ána Tíber í miðbæ Rómar í rökkrinu. Liðsmenn GAP láta til skara skíða og laga götur borgarinnar þegar engir eru á ferli. FILIPPO MONTEFORTE

Klukkan er sex á sunnudagsmorgni og í Ostiense-hverfinu í suðurhluta Rómar eru göturnar auðar. Neðanjarðarlestin er nýfarin að ganga og nærliggjandi kaffihús hafa ekki enn opnað fyrir fyrstu viðskiptavini dagsins.

Sjö karlar og konur eru hins vegar á fullu við að taka poka af sementi og sandi úr bíl í nágrenni Pálskirkjunnar, með andlitin hulin með treflum og klútum. Hér eru þó engir glæpamenn á ferð, heldur tilheyra sjömenningarnir GAP, hópi aðgerðasinna sem hefur tekið að sér það bessaleyfi að laga gangstéttir og götur Rómarborgar án tilskilinna leyfa frá borgaryfirvöldum.

Viðhald borga eða skortur á því hefur lengi verið mikið deiluefni á Ítalíu og í götum höfuðborgarinnar Rómar einni er áætlað að leynist um 10.000  holur. Sorphreinsun hefur einnig orðið að meiri háttar vandamáli frá því að urðunarstað borgarinnar var lokað árið 2013 og skapast reglulega krísuástand þegar sorpið hleðst upp á götum borgarinnar.  Þá hafa fréttir af sprengingum í strætisvögnum og hruni rúllustiga á neðanjarðarlestarstöðvum ratað í alþjóðlega fjölmiðla og þykja enn eitt dæmið um skort á viðhaldi.


 

Laga gosbrunna og mála gangbrautir

Sjömenningarnir sem lögðu gangstéttina í Ostiense-hverfinu án leyfis dylja andlit sitt svo enginn viti hverjir þeir eru, en þeir tilheyra hópi um 20 aðgerðasinna og stendur GAP fyrir Gruppi Astigiani Pronto Intervento (sem útleggja má sem hópur neyðarhandverksmanna). Nafnið er einnig vísun í Gruppi di Azione Patriottica, andspyrnuhreyfingu sem barðist gegn fastistum í síðari heimsstyrjöldinni.

„Við völdum nafnið af því foreldrar og afar og ömmur margra okkar voru í andspyrnuhreyfingunni og við vildum heiðra minningu þeirra,“ segir einn aðgerðasinnanna í samtali við Guardian. Sá er arkitekt á sextugsaldri sem hér er kallaður Rento.

Heimilislaus maður sefur hér ofan á stöflum dagblaða og ruslapoka …
Heimilislaus maður sefur hér ofan á stöflum dagblaða og ruslapoka í Róm. Sorphreinsun hefur einnig orðið að meiri háttar vandamáli frá því að urðunarstað borgarinnar var lokað árið 2013. AFP

Þótt liðsmenn GAP hætti ekki lífi sínu með sama hætti byggja þeir starfsemi sína upp með svipuðum hætti — finna markmið, láta til skarar skríða og láta sig svo hverfa óséðir.

GAP hefur líka haft meira en nóg að gera undanfarna mánuði. Í desember gerðu liðsmenn hópsins við gosbrunn frá fimmta áratug síðustu aldar sem stendur á skólalóð í borginnil. Í  janúar máluðu þeir gangbrautarmerkingar á hættulegustu vegina og nú síðast löguðu þeir gangstéttirnar í Ostiense, meðal annars djúpa holu sem fylltist alltaf af vatni þegar rigndi.

GAP merkir verk sín alltaf með lógói af hamri og skrúfjárni sem ýmist er málað með stensli á staðinn, eða á pappírsspjald sem skilið er eftir. Þá skilja liðsmenn einnig eftir bækling þar sem þeir hvetja aðra Rómarbúa til að fylgja í þeirra fótspor.

Lagfæra það sem skrifræðinu mistekst

„GAP eru leynileg samtök —í stað þess að stunda skemmdarverk lagar gappisti það sem skrifræðinu mistekst. Finnið ykkar takmark, skipuleggið ykkur og lagið: Gerist líka gappistar,“ er meðal skilaboðanna sem liðsmenn hópsins skilja eftir.

Rómarbúi á ferð um götur borgarinnar. Líkt og í fleiri …
Rómarbúi á ferð um götur borgarinnar. Líkt og í fleiri ítölskum borgum hefur niðurskurðarhnífurinn komið harkalega niður á opinberum framkvæmdum. Mynd úr safni. AFP

Peppe (ekki hans rétta nafn) er annar stofnfélagi hópsins og raunar höfundur GAP-hugmyndafræðinnar. Hann segir hugmyndina hafa kviknað út frá því að hann sá barn sem gengur í skólann, þar sem áðurnefndur gosbrunnur stendur. Hann rifjar upp að borgarstarfsmenn hafi komið og lagað leiðslu í brunninum, en svo hafi ekki verið gert við gosbrunninn sjálfan sem var eftir sem áður ónothæfur. „Þannig að við ákváðum að skerast í leikinn að næturlagi,“ segir Peppe.

Hann segir GAP þurfa að brjóta stöku lög til að sinna verkum sínum. Þannig hafi liðsmenn samtakanna til að mynda farið inn á skólalóðina án leyfis og eins hafi þeir lokað veginum án leyfis er þeir máluðu gangbrautarmerkingarnar. 

Allir flokkar ábyrgir

„Það er satt að við höfum sniðgengið borgarstjórnina,“ segir Renato. „Hvað gosbrunninn varðar þá var enginn hins vegar að fara að laga hann næstu tvö árin að minnsta kosti. Þannig að við sögum við okkur: Við skulum gera þetta sjálf og sjáum hvað gerist.“

Liðsmenn Gap segja aðgerðir sínar ekki vera til höfuðs borgarstjóranum Virginia Raggi, sem tilheyri Fimmstjörnuhreyfingunni. „Þessi staða er afleiðing margvíslegs vanda sem hefur hlaðist upp í gegnum árin,“ segir þriðji liðsmaðurinn Nadir (ekki heldur hans rétta nafn). „Allir flokkarnir sem hafa stjórnað borginni bera ábyrgð á þessu.“

Virginia Elena Raggi, borgarstjóri Rómar. Liðsmenn GAP segja aðgerðir sínar …
Virginia Elena Raggi, borgarstjóri Rómar. Liðsmenn GAP segja aðgerðir sínar ekki beinast gegn henni. Viðhaldsleysið sé vandi allra þeirra flokka sem stjórnað hafi borginni undanfarin ár. AFP

Niðurskurðarhnífnum hefur verið beitt skarpt í mörgum borgum landsins undanfarin ár, m.a. í Róm, Napólí og Tórínó og fyrir vikið hefur reynst erfitt að fjármagna almannaþjónustu í borgunum.

Guardian segir suma gagnrýnendur vissulega kunna að halda því fram að aðgerðir hópa á borð við GAP letji borgaryfirvöld til að eyða tíma og fé í viðgerðir þegar borgarbúar geri það frítt. Liðsmenn GAP vonast samt sem áður til að aðgerðir þeirra hvetji borgaryfirvöld til dáða.

„Það er ekki eins og við séum hópur anarkista,“ segir Renato. „Við erum bara fólk sem býr í þessu hverfi, þar sem allir þekkja alla, og erum að reyna að bæta ástandið.“

„Ég vona að einhverjir eigi eftir að fylgja í fótspor okkar,“ segir Nadir. „Mér fyndist æðislegt að frétta af því einn daginn að GAP-hópar hefðu verið stofnaðir í öðrum borgum.“

Börn blása sápukúlur á götum Rómar.
Börn blása sápukúlur á götum Rómar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert