Trump í opinbera heimsókn til Bretlands

Melania Trump, Donald Trump og Theresa May.
Melania Trump, Donald Trump og Theresa May. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, mun koma til Bretlands í þriggja daga opinbera heimsókn í júní. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Buckingham höll. Forsetinn er væntanlegur, ásamt eiginkonu sinni Melania Trump, 3. júní.

Elizabeth II og Donald Trump.
Elizabeth II og Donald Trump. AFP

Þau verða gestir Elísabetar drottningar og verða viðstödd ásamt henni minningarathöfn um D-daginn svonefnda í Portsmouth. Að morgni D-dags fyrir 75 árum, 6. júní 1944, sigldu 370.000 bandarískir, breskir og kanadískir hermenn og sjóliðar á 5.300 skipum upp að Normandí-strönd Frakklands. Um kvöldið hafði öflugur her bandamanna brotizt gegnum Atlantsmúr Þjóðverja og tryggt sér verulega fótfestu á 60 mílna löngum kafla. Á aðeins einum lendingarstað af fimm mætti innrásarliðið alvarlegri mótspyrnu, en jafnvel þar urðu Þjóðverjar að lúta í lægra haldi. Stríð á nýjum vígstöðvum var hafið og um leið upphafið að endalokum Þýskalands nasista,segir í frétt sem Guðmundur Halldórsson skrifaði í Morgunblaðið fyrir 25 árum síðan. 

Trump mun einnig funda með Theresu May forsætisráðherra í Downingstræti.

Trump hitti Elísabetu drottningu að máli í Windsor kastala þegar hann kom til Bretlands í júlí 2018 en það var ekki opinber heimsókn. Frá Englandi fer hann til Skotlands en þar á hann golfklúbb. 

May segir heimsóknina í júní gefa færi á að styrkja tengsl ríkjanna tveggja sem þegar eru náin á ýmsum sviðum. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert