Fór vel á með Pútín og Kim

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP

Meðal þess sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, ræddu á fundi sínum í rússnesku borginni Vladivostok í morgun var nánara samstarf ríkjanna til þess að halda aftur af áhrifum Bandaríkjanna.

Þetta var í fyrsta sinn sem leiðtogarnir tveir hittust en eftir fundinn, sem stóð yfir í talsvert lengri tíma en búist hafði verið við eða um tvær klukkustundir, sagði Kim að hann hefði átt mjög gagnlegt samtal við Pútín um gagnkvæm hagsmunamál.

Hvorugur leiðtoganna vildi þó ræða mikið nánar um það sem rætt var á fundinum að honum loknum. Fram kemur í frétt AFP að líklegt umræðuefni sé meðal annars staða um 10 þúsund norðurkóreskra verkamanna í Rússlandi sem til stendur að senda úr landi.

AFP

Helsti útflutningur Norður-Kóreu og tekjulind landsins er vinnuafl og er talið að Kim hafi óskað eftir því að verkamennirnir fengju að vera áfram í Rússlandi. Einnig er talið líklegt að Kim hafi óskað eftir aukinni matvælaaðstoð frá Rússlandi.

Hvað Pútín varðar er fundurinn einkum talin gagnlegur sem liður í þeirri stefnu forsetans að stilla Rússlandi upp sem mótvægi við alþjóðlegum áhrifum Bandaríkjanna. Eftir fundinn hélt Pútín til Kína þar sem hann mun ræða við kínverska ráðamenn.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert