Vildi ekki stuðning frá Obama

Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og Joe Biden, fyrrverandi varaforseti …
Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og Joe Biden, fyrrverandi varaforseti landsins. AFP

„Ég bað Obama forseta um að lýsa ekki yfir stuðningi. Hver sem hlýtur þessa útnefningu ætti að gera það á eigin forsendum,“ sagði Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, við fjölmiðla í dag en hann tilkynnti í gær um þátttöku sína í forvali Demókrataflokksins vegna forsetakosninganna á næsta ári.

Biden var varaforseti Baracks Obama í forsetatíð hans. Hann er einn af tuttugu demókrötum sem tilkynnt hafa þátttöku í forvalinu. Þar á meðal eru öldungadeildarþingmennirnir Bernie Sanders, Elizabeth Warren og Kamala Harris, nokkrir núverandi og fyrrverandi fulltrúadeildarþingmenn og fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Obamas, Julian Castro.

Spurður hvers vegna hann væri betri frambjóðandinn gegn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sagði Biden að það væri demókrata að ákveða það. Biden og Obama urðu mjög nánir þegar þeir störfuðu saman og þau nánu tengsl hafa haldist að sögn Katie Hill, talsmanns Obama.

Obama fullur eftirvæntingar vegna forvalsins

Skömmu áður en Obama lét af embætti í janúar 2017 kom hann Biden á óvart með því að sæma hann æðsta heiðursmerki sem óbreyttum borgurum er veitt í Bandaríkjunum.

Haft er eftir heimildarmanni sem þekkir til Obama í fréttinni að ólíklegt væri að forsetinn fyrrverandi lýsti yfir stuðningi við einhvern þátttakandann í forvalinu svo snemma í ferlinu. Sjálfur hafi Obama sagt að þátttaka í kraftmiklu forvali hefði gert hann að betri forsetaframbjóðanda.

Heimildarmaðurinn sagði Obama fullan eftirvæntingar vegna þess hversu fjölbreyttur og frambærilegur hópur hefði tilkynnt þátttöku í forvalinu. Best færi á því að þátttakendurnir sæju sjálfir um það að koma sér á framfæri við kjósendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert