Myndi tapa 139 þingmönnum

AFP

Færu þingkosningar fram í Bretlandi í dag fengi Íhaldsflokkurinn verstu útreið í sögu sinni ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar. Þannig fengi flokkurinn einungis 19% fylgi en Brexitflokkurinn, nýr flokkur sem leggur höfuðáherslu á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, fengi hins vegar 20% fylgi.

Til samanburðar hlaut Íhaldsflokkurinn 42,4% fylgi í síðustu þingkosningum í Bretlandi árið 2017. Miðað við könnunina myndi flokkurinn tapa 139 þingsætum og aðeins fá 179 miðað við 318 í kosningunum fyrir tveimur árum. Þær kosningar þóttu þó ekki skila sér vel fyrir Íhaldsflokkinn sem missti þingmeirihluta sinn í þeim.

Hins vegar fengi Brexitflokkurinn, hvers leiðtogi er Nigel Farage þingmaður á þingi Evrópusambandsins sem áður fór fyrir Breska sjálfstæðisflokknum, 48 þingsæti ef marka má könnunina sem gerð var af fyrirtækinu ComRes fyrir breska dagblaðið Daily Telegraph.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Fylgi Íhaldsflokksins virðist að langmestu leyti færast yfir á Brexitflokkinn. Hins vegar eru einmenningskjördæmi í Bretlandi sem þýðir að sá frambjóðandi sem fær mest fylgi nær kjöri. Annað fylgi skilar þar með ekki í þingmanni.

Þetta skilar því einnig að þrátt fyrir að Verkamannaflokkurinn tapi einnig fylgi samkvæmt könnuninni, fær 27% en fékk 40% í síðustu kosningum, myndi hann engu að síður bæta við sig 54 þingmönnum.

Hvað Evrópuþingskosningarnar, sem fram fara síðar í þessum mánuði, mælist Brexitflokkurinn með mest fylgi eða 27% samkvæmt könnuninni. Verkamannaflokkurinn er með 25%, Frjálslyndir demókratar með 14% og Íhaldsflokkurinn 13%.

Skammt er síðan Íhaldsflokkurinn galt afhroð í sveitarstjórnarkosningum í Bretlandi og missti þar yfir 1.300 bæjarfulltrúa.

Vaxandi þrýstingur er á Theresu May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Íhaldsflokksins, að segja af sér vegna frammistöðu ríkisstjórnar hennar við að koma Bretlandi úr Evrópusambandinu.

Nigel Farage, leiðtogi Brexitflokksins.
Nigel Farage, leiðtogi Brexitflokksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert