Fann 8,5 milljóna gullklump

Gullklumpurinn er ívið stærri en sígaréttupakki, en vegur um 1,4 …
Gullklumpurinn er ívið stærri en sígaréttupakki, en vegur um 1,4 kg. Ljósmynd/Finders Keepers Gold Prospecting

Ástralskur maður gróf á dögunum úr jörðu 1,4 kg gullklump sem hann fann með málmleitartæki er hann ráfaði um svonefndar „gullsléttur“ í Vestur-Ástralíu.

BBC greinir frá þessu og segir verslun nokkra í borginni Kalgoorlie hafa birt mynd af gullklumpinum á netinu, en hann er talinn vera metinn á um 100.000 Ástralíudali, eða um 8,5 milljónir kr.

Maðurinn, sem ekki hefur verið nefndur á nafn, er sagður vera þaulvanur áhugamaður um gullleit að sögn verslunareigandans, Matt Cook.

Segir BBC gullleitarmenn finna slíka hnullunga nokkrum sinnum á ári, en um þrír fjórðu alls þess gulls sem er grafið úr jörðu í Ástralíu finnst á svæðinu í nágrenni Kalgoorlie þar sem gullnámur eru einnig í vinnslu.

Cook, sem selur gullleitarmönnum útbúnað til gullleitar í verslun sinni, segir manninn hafa komið auga á einhvern hlut um 45 sm undir yfirborðinu.

„Hann gekk svo inn í búðina til mín og sýndi mér hnullunginn sem hann var með í höndum með stórt bros á vör,“ hefur BBC eftir Cook. „Hann var aðeins stærri en sígarettupakki og þéttleikinn í honum var ótrúlegar. Hann var svo þungur.“

Prófessor Sam Spearing sem er forstjóri námasviðs Curtin-háskólans í vesturhluta Ástralíu segir marga gerast gullleitarmenn um helgar. Aðrir hafi þetta að fullri atvinnu. „Mest af því gulli sem finnst vegur undir 140 g og slíkir fundir eru nokkuð tíðir,“ sagði Spearing.

mbl.is