Páfinn: „Fótbolti er leikur“

Frans páfi áritar fótbolta í Vatíkaninu í dag.
Frans páfi áritar fótbolta í Vatíkaninu í dag. AFP

Frans páfi ræddi um fótbolta við um 6.000 ítölsk ungmenni í Vatíkaninu í dag og bað þau um að setja ekki svartan blett á „fallegasta leik veraldar“ með því að gerast ofstækisfullir stuðningsmenn.

„Fótbolti er leikur, eigum við að segja það saman?“ sagði páfi við ungmennin, sem svöruðu honum af krafti til baka. Viðburður dagsins var skipulagður af ítalska íþróttadagblaðinu La gazzetta dello sport og ítalska knattspyrnusambandinu.

„Ekki gleyma því að fótbolti er leikur,“ sagði páfinn, sem sjálfur er mikill stuðningsmaður argentínska félagsliðsins San Lorenzo. Hann hvatti foreldra til þess að brýna það fyrir börnum sínum að fótbolti væri fyrst og síðast leikur.

Frans páfi ásamt fótboltastjörnunum Samuel Eto'o og Clarence Seedorf.
Frans páfi ásamt fótboltastjörnunum Samuel Eto'o og Clarence Seedorf. AFP

„Margir lýsa fótbolta sem fallegasta leik veraldar. Ég tek undir það, en það er persónuleg skoðun mín,“ sagði páfinn og uppskar dúndrandi lófatak samkvæmt frétt AFP um málið.

Páfi sagði að því miður væru ýmsir hlutir, bæði innan og utan vallar í knattspyrnuheiminum, sem settu ljótan blett á fegurð fótboltans og nefndi þar sérstaklega að stundum væru foreldrar of kappsfullir er þeir fylgdust með börnum sínum spila.

„Ekki gleyma því hvaðan þið komuð,“ sagði páfinn við fræga knattspyrnumenn sem mættu á viðburðinn í Vatíkaninu, en á meðal þeirra sem komu voru Javier Zanetti, Samuel Eto'o og Clarence Seedorf.

Hann sagði það í höndum þeirra, sem fyrirmynda, að hjálpa ungmennum að verða meistarar í eigin lífi.

Frans páfi heilsar argentínska bakverðinum Javier Zanetti.
Frans páfi heilsar argentínska bakverðinum Javier Zanetti. AFP
Ítalska blaðið La Gazzetta dello Sport færði páfa þetta fótboltaspil …
Ítalska blaðið La Gazzetta dello Sport færði páfa þetta fótboltaspil að gjöf. AFP
Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert