Var bannað að koma nálægt dýrum í áratug

Aðkoman við kirkjuna í Søgne fyrir þremur árum var ekki …
Aðkoman við kirkjuna í Søgne fyrir þremur árum var ekki hugguleg, í því máli var 17 ára piltur dæmdur fyrir hrottalegar misþyrmingar á dýrum þar sem hann auk margs annars sagaði höfuðin af hreysiketti, tveimur marsvínum og ketti og lagði við kirkjudyrnar þannig að hræin mynduðu kross. Myndskeið sem sakborningurinn og félagar hans tóku komu meðal annars upp um þá en lifandi dýr höfðu þá um nokkurt skeið horfið úr framhaldsskóla sem þeir sóttu. Ljósmynd/Lögreglan í Agder-umdæminu

Tvítugur maður neitar staðfastlega sök í máli sem hann hefur þó verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald fyrir að beiðni lögreglunnar í Agder-umdæminu í Noregi. Hinn grunaði hlaut tveggja ára dóm fyrir dýraníð árið 2017 í máli sem vakti hvort tveggja óbeit og athygli er hann limlesti og drap fjölda dýra og kom hræjum þeirra fyrir þannig að ekki fór fram hjá nokkrum manni í byggðarlaginu Søgne.

Grunaði gerði þá hreysikött, tvö marsvín og kött höfðinu styttri og lagði hræin við dyrnar á gömlu kirkjunni í Søgne þannig að þau mynduðu kross. Meðal gagna í málinu voru myndskeið sem hann og félagar hans tóku af háttsemi sinni og voru lögð fram við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. 

Auk tveggja ára refsivistar úrskurðaði dómari einnig að dómfellda væri með öllu bannað að koma nálægt dýrum í tíu ár frá dómsuppsögu að telja. Skirrðist hann augljóslega ekki við að ganga gegn banni þessu og sætir nú gæsluvarðhaldi með ákæru fyrir brot á lögum um dýravernd yfir höfði sér.

Terje Kaddeberg Skaar, saksóknari lögreglunnar í Agder í málinu, neitar að tjá sig nokkuð um málið við norska fjölmiðla vegna rannsóknarhagsmuna en rannsókn þess stendur nú yfir. Verjandi grunaða, Marius Larsen, tekur í sama streng.

Nam dýr á brott úr framhaldsskóla sínum

„Þetta er hryllingur, hvernig getur nokkrum manni látið sér eitthvað á borð við þetta til hugar koma?“ spurði Ingeborg Folkestad, umsjónarmaður smádýrasafns framhaldsskólans í Søgne, í samtali við NRK árið 2016 þegar fyrra málið kom upp. Skömmu áður en málið komst í hámæli höfðu dýr horfið úr skólanum, þar á meðal kanína sem fannst síðar hrottalega limlest.

„Þetta er algjörlega sjúkt, dýrin voru lögð í krossmynstur utan við kirkjuna, hvað verður það næst?“ sagði Kurt Helge Almendingen, starfsmaður kirkjugarðsins við Søgne-kirkjuna, en í hans hlut kom að verða fyrsta vitni að óhugnaðinum og kom hann fyrstur auga á blóði roðna hurð kirkjunnar.

Grunaði getur nú vænst þyngri dóms vegna ítrekunaráhrifa en lögregla og saksóknari verjast allra frétta af þeim gjörningum sem honum verða gerðir að sök í nýja málinu sem nú er komið upp.

mbl.is