Lýðræðið er undir í máli Julian Assange

Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra VG.
Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra VG. mbl.is/Árni Sæberg

Mál Julian Assange snýst ekki einungis um hann sem einstakling eða Wikileaks heldur um frjálsa fjölmiðlun og lýðræðið sjálft. Þetta er meðal þess sem Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, sagði í samtali við rússneska fjölmiðilinn RT.

Ögmundur var gestur í þættinum Going Underground í umsjón Afshin Rattansi. Afshin spurði Ögmund af hverju bresk stjórnvöld gætu ekki treyst réttarkerfinu í Bandaríkjunum í máli Julian Assange.

„Ég myndi endurorða spurninguna og spyrja hvort við getum treyst breska réttarkerfinu,“ svaraði Ögmundur og bætti því við að svo að réttarríki geti starfað eðlilega þurfi annars vegar að vera til staðar óhlutdrægt dómskerfi og hins vegar að tryggt sé að upplýsingar um glæpi og misgjörðir komi fram í dagsljósið. Hann sagði að Wikileaks hefði staðið sig vel í því að upplýsa um glæpi sem framdir hafa verið af einstaklingum og stórveldum.

Ögmundur gagnrýndi Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, harðlega fyrir að gera Wikileaks að skotmarki stjórnvalda og sakaði bandarísk stjórnvöld um hræsni.

Þá rifjaði hann upp þegar alríkislögregla Bandaríkjanna FBI sendi „flugvél fulla af fulltrúum“ hingað til lands árið 2011 og sagði það hafa verið gert með það að markmiði að koma sök á Julian Assange og Wikileaks. 

Ögmundur sagði það vera skyldu fjölmiðla að standa þétt við bakið á Assange og Wikileaks í umfjöllun um málaferlin.

Í þættinum kom fram að haft hefði verið samband við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra til að leita viðbragða við ummælum Ögmundar en þeirri fyrirspurn hafi ekki verið svarað í tæka tíð fyrir útsendingu þáttarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert