Krefjast afsagnar ráðherra vegna Epsteins

Alexander Acosta, atvinnumálaráðherra Bandaríkjanna, sætir nú gagnrýni vegna aðildar sinnar …
Alexander Acosta, atvinnumálaráðherra Bandaríkjanna, sætir nú gagnrýni vegna aðildar sinnar að samkomulagi sem alríkisyfirvöld gerðu við Epstein árið 2008. AFP

Demókratar á Bandaríkjaþingi krefjast nú þess að atvinnumálaráðherrann Alexander Acosta láti af embætti eða verði rekinn vegna aðkomu sinnar að því er yfirvöld gerðu samkomulag við milljarðamæringinn Jeffrey Epstein árið 2008, sem þá hafði verið ákærður fyrir barnaníð.

Epstein var í gær leiddur fyrir dómara og ákærður fyr­ir að eiga sam­ræði við stúlk­ur und­ir lögaldri, fyr­ir man­sal og skipu­lagn­ingu man­sals. Sjálfur neitar Epstein ákærunum.

BBC segir Acosta sæta gagnrýni fyrir að hafa átt þátt í því að alríkisyfirvöld gerðu sam­komu­lag við Epstein 2008. Það ár gekkst hann við tveimur minni háttar brotum og fékk fyrir þau 13 mánaða dóm, í stað þess að eiga yfir höfði sér allt að lífstíðarfang­elsi sam­kvæmt öðrum  ákær­um.

Frá blaðamannafundi þar sem ákæra á hendur Epstein var tilkynnt.
Frá blaðamannafundi þar sem ákæra á hendur Epstein var tilkynnt. AFP

Ákærurnar sem Epstein svarar fyrir nú ná allt aftur til ársins 2000.

Acosta hafði verið saksóknari fyrir alríkisyfirvöld á Flórída í rúman áratug er hann bauð Epstein samkomulagið, sem um leið batt enda á rannsókn alríkislögreglunnar FBI á því hvort fórnarlömbin væru fleiri en þau 36 sem nefnd voru í dómsskjölunum.

13 mánaða dóminn sem Epstein hlaut á þeim tíma gat hann að mestu setið af sér á eigin skrifstofu á Palm Beach.

Það var svo í nóvember á síðasta ári sem dagblaðið Miami Herald birti rannsókn á þætti Acosta í samkomulaginu. Þegar Acosta var tilnefndur sem ráðherra í mars 2017 varði hann samkomulagið fyrir þingmönnum og sagði það hafa falið í sér að Epstein þyrfti að skrá sig sem kynferðisbrotamann og sitja í fangelsi.

Acosta tjáði sig svo á Twitter í dag um málið. Þar varði hann þátt sinn í rannsókninni 2008 og sagðist styðja nýju rannsóknina. „Nú þegar ný sönnunargögn og fleiri vitnisburðir eru komnir fram hefur saksóknaraembættið í New York tækifæri á að ná fram frekara réttlæti,“ sagði Acosta.

Glæpir Epsteins „væru hræðilegir“ og því væri hann ánægður með að hægt væri að fara lengra með málið.

Fréttastofa Fox-sjónvarpsstöðvarinnar hefur eftir atvinnumálaráðuneytinu að Acosta hafi engan hug á að segja af sér vegna málsins.

mbl.is