May boðar neyðarfund vegna olíuskipsins

Theresa May forsætisráðherra Bretlands hefur boðað til neyðarfundar vegna olíuskipsins.
Theresa May forsætisráðherra Bretlands hefur boðað til neyðarfundar vegna olíuskipsins. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur boðað til neyðarfundar í ríkisstjórn sinni í dag vegna olíuskipsins Stena Impero sem íranski herinn hertók á Hormússundi á föstudag.

BBC greinir frá og segir búist við að May muni fá skýrslur frá ráðherrum og embættismönnum og að rætt verði hvernig viðhalda megi öruggum skipaflutningum um Hormússund. Utanríkisráðherrann Jeremy Hunt muni svo í kjölfarið greina þingmönnum frá því hvaða aðgerða stjórnvöld ætli að grípa til.

Greint var frá því um helgina að bresk stjórnvöld íhugi nú að frysta eigur Írana í Bretlandi.

Hunt ræddi í gær við utanríkisráðherra Frakklands og Þýskalands sem báðir hafa fordæmt aðgerðir Írana. Voru þeir sammála Hunt um að það væri forgangsmál fyrir ríki Evrópu að tryggja öryggi skipaumferðar um Hormússund og forðast um leið að deilan við Írana haldi áfram að stigmagnast.

Mynd af olíuskipinu Stena Imperio við höfn í írönsku borginni …
Mynd af olíuskipinu Stena Imperio við höfn í írönsku borginni Bandar Abbas. AFP

Upp­taka af sam­skipt­um áhafn­ar bresks olíu­flutn­inga­skips við ír­anska her­inn skömmu áður en olíu­flutn­inga­skipið var her­tekið í Persa­flóa var birt um helgina.

Þar heyr­ist talsmaður ír­anska hers­ins gefa skip­stjóra olíu­flutn­inga­skips­ins skip­an­ir þess efn­is að breyta stefnu skips­ins svo hægt væri að „gera á því ör­ygg­is­út­tekt“.

„Ef þið hlýðið, verðið þið óhultir,“ end­ur­tek­ur talsmaður hers­ins í sí­fellu.

Þá má heyra í upp­tök­unni fyr­ir­mæli sem breski sjó­her­inn gef­ur skip­verj­um á ol­íu­skip­inu, þar sem ít­rekað er að ólög­legt sé að hindra för skipa sem stundi flutn­ing á alþjóðleg­um sigl­inga­leiðum. Skip breska sjó­hers­ins var þó of langt frá vett­vangi til þess að geta hindrað her­tök­una.

Tobias Ellwood varnarmálaráherra Bretlands segir bresk skip vera dag hvern á ferð á um 100 sjómílna kafla á svæðinu og að það væri „einfaldlega ómögulegt að veita hverju og einu skipi fylgd“.

mbl.is