Boris Johnson næsti forsætisráðherra

Boris Johnson, næsti forsætisráðherra Bretlands, flytur ræðu eftir að tilkynnt …
Boris Johnson, næsti forsætisráðherra Bretlands, flytur ræðu eftir að tilkynnt var að hann hefði verið kjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins. AFP

Sigurvegari leiðtogakjörsins í breska Íhaldsflokknum er Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands og borgarstjóri London. Johnson verður þar með næsti forsætisráðherra landsins og tekur við af Theresu May sem gegnt hefur embættinu frá því sumarið 2016.

Fjöldi þeirra sem voru á kjörskrá í leiðtogakjörinu var rúmlega 159 þúsund manns og var kosningaþátttakan mikil eða 87,4%. Johnson hlaut um 66% atkvæða en mótherji hans, Jeremy Hunt utanríkisráðherra, þriðjung. Niðurstaðan er á hliðstæðum nótum og búist var við en skoðanakannanir höfðu bent til yfirburðasigurs Johnsons.

Eftir að úrslitin höfðu verið tilkynnt hélt Johnson ræðu þar sem hann þakkaði Hunt fyrir drengilega kosningabaráttu. Enn fremur þakkaði hann May fyrir þjónustu hennar við Íhaldsflokkinn og Bretland. Nú þegar leiðtogakjörinu væri lokið væri kominn tími til þess að taka til hendinni.

Skrifstofa forsætisráðherra Bretlands í Downingstræti 10 í London.
Skrifstofa forsætisráðherra Bretlands í Downingstræti 10 í London. AFP

Stóra verkefni Johnsons fram undan er að framkvæma þá ákvörðun sem meirihluti breskra kjósenda tók í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir þremur árum að Bretland skuli ganga úr Evrópusambandinu. Hefur Johnson lýst því yfir að það verði gert í síðasta lagi 31. október hvort sem samið hafi verið sérstaklega um það eða ekki.

Markmið Johnsons er engu að síður að freista þess að landa samkomulagi við Evrópusambandið um fyrirkomulag útgöngu Bretlands úr sambandinu og fríverslun til framtíðar. Takist það hins vegar ekki fyrir lok október hefur hann ítrekað hafnað því að útiloka að þá verði Evrópusambandið yfirgefið án slíks samnings.

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, varð undir í leiðtogakjörinu í Íhaldsflokknum.
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, varð undir í leiðtogakjörinu í Íhaldsflokknum. AFP

Talið er líklegt að ýmsir ráðherrar í ríkisstjórn May muni segja af sér í kjölfarið en Philip Hammond fjármálaráðherra tilkynnti á sunnudaginn að hann myndi segja af sér ef Johnson sigraði leiðtogakjörið. Sagðist hann aðspurður ekki gera ráð fyrir að verða rekinn úr ríkisstjórninni enda myndi hann segja af sér áður en til þess kæmi.

Þá sagði Alan Duncan af sér embætti sem ráðherra í utanríkisráðuneyti Bretlands í gær og Anne Milton, ráðherra í menntamálaráðuneyti landsins, tilkynnti afsögn sína í dag ásamt David Gauke dómsmálaráðherra. Rory Stewart, sem einnig tók þátt í leiðtogakjörinu á fyrri stigum þess, hefur einnig sagt af sér sem ráðherra þróunarmála.

Fyrir hefur legið að Johnson ætti eftir að gera miklar breytingar á ríkisstjórninni og að ýmsir ráðherrar fengju að taka pokann sinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert