Norður-Kórea skaut tveimur flugskeytum

Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Norður-Kóreumenn skutu tveimur skammdrægum eldflaugum á loft snemma í dag að staðartíma, samkvæmt nágrönnum þeirra á suðurhluta Kóreuskagans. Flugskeytin eiga að hafa flogið 430 kílómetra áður en þau hurfu í Japanshaf.

Samkvæmt erlendum fréttamiðlum eru stjórnvöld í Norður-Kóreu óánægð með fyrirhugaða heræfingu Suður-Kóreu og Bandaríkjamanna í næsta mánuði. 

Flugskeytunum var skotið á loft nærri borginni Wonsan í austurhluta Norður-Kóreu, milli klukkan fimm og sex að staðartíma í nótt.

Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu hvetur nágrannann í norðri til að hætta, enda séu svona sendingar ekki til að minnka spennuna á milli ríkjanna.

Her Suður-Kóreu er í viðbragðsstöðu og þarlendir sérfræðingar kanna hvers konar eldflaugar var um að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert