Fylgjast með dauðateygjum borgaríssins

Borgarísjaki hrynur í hafið úti fyrir King's Point á Nýfundnalandi. …
Borgarísjaki hrynur í hafið úti fyrir King's Point á Nýfundnalandi. Fjöldi ferðamanna kemur að fylgjast með endalokum ísjakanna. AFP

Ferðamennirnir fylgjast með andtaktugir er borgarísinn hrynur í hafið eftir langt ferðalag sitt frá Grænlandi að austurströnd Kanada. Þeir eru stúkusæti til að fylgjast með bráðnun íssins á Norðurheimskautinu.

Á meðan tilhugsunin um hlýnun jarðar og áhrif hennar á Grænlandsjökul, þar sem stór stykki brotna úr ísnum og falla í hafið, vekur mörgum áhyggjur vegna hækkandi sjávarstöðu hafa borgarísjakarnir blásið nýju lífi í afskekktar byggðir á Nýfundnalandi og Labrador.

Svæði sem eitt sinn voru miðpunktur þorskveiðiiðnaðarins eru núviðkomustaður áhugaljósmyndara og ferðamanna sem vonast til að berja augum hrun borgarísjakanna. Um leið og vetri lýkur er farið að svipast um eftir borgarísjökum.

Ferðmenn virða borgarísinn fyrir sér. Svæði sem eitt sinn voru …
Ferðmenn virða borgarísinn fyrir sér. Svæði sem eitt sinn voru miðpunktur þorskveiðiiðnaðarins eru núviðkomustaður áhugaljósmyndara og ferðamanna sem vonast til að berja augum hrun borgarísjakanna. AFP

„Frábært fyrir efnahaginn“

„Þetta batnar með hverju árinu,“ segir Barry Strickland, fyrrverandi fiskimaður í samtali við AFP-fréttaveituna. Hann fer nú með ferðamenn á báti sínum umhverfis King's Point oddann í norðurhluta héraðsins.

„Við fáum orðið 135, 140 rútur með eldra fólki inn í bæinn á hverju tímabili. Þannig að þetta er frábært fyrir efnahaginn.“

Undanfarin fjögur ár hefur Strickland flutt ferðamenn sem vilja verða vitni að dauðateygjum þessara ísrisa, sem teygja sig tugi metra upp í loftið og vega hundruð þúsund tonna.

Vindar og hafstraumar flytja borgarísjakana frá norðvesturhluta Grænlands, þúsunda kílómetra leið í átt að ströndum Kanada.

Á örfáum vikum mun ísinn sem hefur verið frosinn í þúsundir ára bráðna í hafið.

Kerry Chaulk selur borgarísvatn á glerflöskum fyrir 16 Kanadadollara flöskuna.
Kerry Chaulk selur borgarísvatn á glerflöskum fyrir 16 Kanadadollara flöskuna. AFP

Fullbókað í bátsferðirnar

Bátaferðirnar sem Strickland fer með ferðamenn í eru nú allar fullbókaðar yfir háferðamannatímann, á tímabilinu frá maí til júlí. Þá gera ferðamenn alls staðar að úr heiminum sér ferð til King‘s Point þorps þar sem 600 manns búa.

Íbúarnir fylgjast með ferð borgarísjakanna og uppfæra upplýsingarnar á gagnvirkt gervihnattakort sem sveitastjórnin lét setja á netið.

„Það er ekki mikið eftir í þessum útbyggðum til að halda fólki hérna, þannig að ferðamannaiðnaðurinn er stór þáttur í hagkerfi okkar,“ segir Devon Chaulk,  sem vinnur í minjagripabúð í Elliston, 300 manna bæi, á„Borgarísjaka beltinu“ líkt og strandlengjan er nú kölluð.  

„Ég hef búið hér alla mína ævi og fjölgun ferðamanna hér um slóðir sl. 10-15 ár hefur verið ótrúleg. Það er vekur ekki furðu að þúsundir séu hér á ferð næstu tvo mánuði,“ bætti hann við.

Hálf milljón ferðamanna heimsótti Nýfundnaland og Labrador á síðasta ári, það jafngildir öllum íbúafjölda svæðisins.  Tölur stjórnvalda sýna að þeir ferðamenn eyddu tæpum 570 milljónum Kanadadollara, eða rúma 53 milljarða króna.

Borgarísjakarnir hafa blásið nýju lífi í afskekktar byggðir á Nýfundnalandi …
Borgarísjakarnir hafa blásið nýju lífi í afskekktar byggðir á Nýfundnalandi og Labrador. AFP

Ótryggt að byggja rekstur á borgarísnum

Ferðamannaiðnaðurinn hefur skapað mótvægi við samdrætti í fiskiðnaðinum, sem er nú í vanda vegna ofveiði undir lok síðustu aldar.

Sumir markaðssetja meira að segja borgarísvatnið sem það hreinasta á jörðu og selja sem lúxusvarning. Vatnið er líka notað í vodka, bjór og snyrtivörur.

Efnahagsvöxturinn á sér þó dekkri hlið, enda eru íbúar að hagnast á hröðun hlýnunar jarðar á Norðurskautinu og er rekstur þeirra fyrirtækja sem byggja sitt á borgarísnum því í besta falli ótryggur.

Forsvarsmenn víngerðarinnar Auk Island í þorpinu Twillingate, sem býr til áfengi úr borgarísvatni og villtum berjum hafa þegar orðið varir við þetta. „Fjöldi ferðamanna er misjafn milli ára, allt eftir því hversu margir borgarísjakar eru á svæðinu,“ segir Elizabeth Gleason sem starfar í víngerðinni. „Þetta ár hefur verið gott, en í fyrra kom næstum enginn.“

Hlýnun á Norðurskautinu er nær þrisvar sinnum hraðari en annars staðar í heiminum og um miðjan síðasta mánuð voru hitamet slegin í nágrenni Norðurpólsins.

Undanfarin ár hafa borgarísjakarnir líka flotið æ lengra suður eftir og eru þar með ógn við skipaumferð á þessar annasömu leið milli Evrópu og Bandaríkjanna.

Í augnablikinu njóta ferðamennirnir hins vegar útsýnisins og reynslunnar. „Viðvera borgarísjakanna er bæði af hinu góða og slæma,“ segir Melissa Axtman bandarískur ferðamaður.

Laurent Lucazeau, 34 ára Frakki, segir það koma manni niður á jörðina að sjá borgarísjakana. „Þetta er áþreifanleg birtingarmynd hlýnunar jarðar, að sjá þá komna á slóðir þar sem sjórinn er hlýr,“ sagði  hann.

„Það er eitthvað dularfullt og áhrifamikið við það, en maður veit samt að þeir eiga ekki að vera hérna og það er svolítið ógnvekjandi.“

Víngerðin Auk Island í Twillingate, framleiðir vín úr borgarísvatni og …
Víngerðin Auk Island í Twillingate, framleiðir vín úr borgarísvatni og villtum berjum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina