Frítt í strætó fyrir viðskiptavini Krónunnar

Guðrún og Markús.
Guðrún og Markús. Ljósmynd/Aðsend

Krónan mun bjóða viðskiptavinum sínum í Strætó á mánudag í tilefni af alþjóðlegum degi jarðar, sem haldinn er 22. apríl ár hvert.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Krónunni. 

Frítt fyrir farþega með fjölnota innkaupapoka

Í tilkynningunni segir að framtak Krónunnar til dags jarðar í ár verði unnið í samstarfi við Strætó bs., og fá allir sem mæta með fjölnota innkaupapoka í strætó á höfuðborgarsvæðinu frítt far með vagninum á mánudag. 

Þannig geti fyrirtækið aðstoðað við að draga úr umferð einkabílsins og lagt sitt af mörkum til umhverfisvænni ferðamáta á alþjóðadeginum. 

„Dagur jarðar hefur verið haldinn árlega í fjöldamörg ár og er ætlað að minna okkur á að fara vel með jörðina okkar og umhverfið og umfram allt hvetja fólk til að leggja sitt af mörkum. Það eru margvíslegar leiðir til að fara betur með umhverfið okkar og þar má meðal annars nefna samgöngumáta okkar.

Á höfuðborgarsvæðinu er fjöldi Krónuverslana og eru þær allar nálægt stoppistöð Strætó. Okkur fannst því upplagt að fara í samstarf með Strætó og í sameiningu lyfta þessu málefni upp, þá bæði með því að hvetja fólk til að nýta sér umhverfisvænni fararmáta og í leiðinni minna það á að grípa fjölnota innkaupapokann með sér,“ er haft eftir Guðrúnu Aðalsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Krónunnar, í tilkynningunni.

Strætó fagnar framtakinu

Þá segir Markús Vilhjálmsson, sviðsstjóri sölu-, markaðs- og þjónustusviðs Strætó, fagna framtakinu og að fyrirtækið leggi ríki áherslu á orkusparnað. 

„Við fögnum þessu framtaki Krónunnar og hvetjum auðvitað sem flesta til að taka fram fjölnota pokann sinn og þiggja frítt far í búðina með Strætó. Við hjá Strætó leggjum ríka áherslu á orkusparnað og stefnum á að skipta út dísilknúnum strætisvögnum fyrir umhverfisvænni orkugjafa eins og rafmagns-, vetnis- og metanknúna vagna. Markmið okkar er að vera komin með kolefnislausan vagnaflota árið 2030.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert