Vilja fresta Brexit fram á næsta ár

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Takist stjórnarandstöðunni í neðri deild breska þingsins ætlunarverk sitt í samstarfi við rúmlega tvo tugi fyrrverandi þingmanna Íhaldsflokksins verður fyrirhugaðri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu frestað að minnsta kosti þar til 31. janúar.

Lagafrumvarp þess efnis að útgöngu Bretlands verði frestað verður tekið fyrir í neðri deild breska þingsins í dag, en samþykkt var í þinginu í gær að það yrði tekið á dagskrá. Til þess þurfti þingforsetinn John Bercow að beita neyðarúrræði sem deilt hefur verið um að heimilt sé í raun samkvæmt óskrifaðri stjórnarskrá Bretlands.

Vill þingkosningar 14. október

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, hefur kallað eftir því í dag að boðað verði til nýrra þingkosninga 14. október en til þess að hægt verði að boða til kosninga áður en kjörtímabilinu lýkur þarf samþykki 2/3 þingmanna neðri deildarinnar.

Ríkisstjórn Johnsons hefur ekki lengur formlegan meirihluta í neðri deild breska þingsins eftir að þingmaðurinn Philip Lee yfirgaf Íhaldsflokkinn í gær og gekk til liðs við Frjálslynda demókrata og þeim 21 þingmanni, sem greiddi atkvæði gegn ríkisstjórninni í gær, var vikið úr flokknum eins og Johnson hafði hótað fyrir atkvæðagreiðsluna.

Forystumenn Verkamannaflokksins hafa sagt að þeir séu reiðubúnir í þingkosningar en ekki fyrr en þeim hefur tekist að fresta útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og koma þannig í veg fyrir að Bretland fari án samnings úr sambandinu.

Tefst útgangan um mörg ár?

Forsætisráðherrann hefur harðlega gagnrýnt áform stjórnarandstöðunnar og þeirra nú fyrrverandi þingmanna Íhaldsflokksins sem gengu í lið með henni. Fyrirhugað frumvarp feli í sér að lagt verði í hendur Evrópusambandsins að ákveða hvenær Bretar geti gengið úr sambandinu sem gæti orðið eftir mörg ár ef af því verði á annað borð.

Johnson segir þingmennina sem reknir voru Íhaldsflokknum ekki verða í framboði fyrir flokkinn í næstu þingkosningum. Þá hefur hann sagt að hann vilji ekki kosningar en komi til þeirra verði það kosningar um hver eigi að ráða, þjóðin eða þingið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert