Barn lést í stærsta kvennafangelsi Evrópu

Hér sést fangelsið. Málið vekur upp alvarlegar spurningar um aðstöðuna …
Hér sést fangelsið. Málið vekur upp alvarlegar spurningar um aðstöðuna í Bronzefield. Ljósmynd/Yahoo

Lögreglan í Bretlandi rannsakar nú andlát barns í stærsta kvennafangelsi Bretlands, HMP Bronzefield. Móðir þess er fangi í Bronzefield en hún fæddi það ein og óstudd í klefa sínum að nóttu til á föstudaginn í síðustu viku. 

Guardian greinir frá þessu. Heimildarmaður blaðsins segir að þegar starfsmenn komu að konunni og barninu hafi barnið sýnt lítil viðbrögð.

Vicky Robinson, forstjóri Bronzefield, staðfesti við Guardian að barnið hafi dáið fyrir viku síðan. Hún sagði jafnframt að fangelsið styddi nú við bakið á móðurinni.  

Í tilkynningu frá lögregluyfirvöldum segir að dauði barnsins sé nú talinn óútskýrður og að rannsókn muni leiða í ljós hvað nákvæmlega átti sér stað.

Fjórar konur andast í Bronzefield á þremur árum

Fangelsið er einkarekið en málið vekur upp alvarlegar spurningar um aðstöðuna þar sem og spurningar um það hvernig það gat gerst að konan væri án eftirlits og lyfja í hríðum og fæðingu.

Bronzefield er stærsta kvennafangelsi Evrópu. Þar dvelja allt að 557 konur í einu. Áður hafa vaknað spurningar um aðbúnað fanga í Bronzefield.

Fanginn Natasha Chin lést í Bronzefield árið 2016. Réttarrannsókn leiddi í ljós að vanræksla og kerfislægir annmarkar hafi leitt til dauða hennar. Fjórar konur hafa látið lífið síðan í júlí 2016.

Á hverju ári eru 600 þungaðar konur í fangelsi í Englandi og Wales og fæðast árlega 100 börn í fangelsunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert