Musk dreginn fyrir dóm vegna ummæla um barnaníð

Lögmaður Musk segir að þeir hlakki til réttarhaldanna.
Lögmaður Musk segir að þeir hlakki til réttarhaldanna. AFP

Athafnamaðurinn Elon Musk, forstjóri Teslu, verður dreginn fyrir dóm í desember fyrir ummæli sín um breskan kafara sem Musk kallaði barnaníðing í tísti á samfélagsmiðlinum Twitter. 

Dómari hafði áður neitað kröfu Musk um að málinu yrði vísað frá. Stephen Wilson, umdæmisdómari í Los Angeles, sagði í samtali við Guardian að kviðdómur myndi nú taka ákvörðun um það hvort yfirlýsingar Musks um Vernon Unsworth, breskan kafara sem hjálpaði til við björgun ungra fótbóltadrengja úr neðansjávarhelli í Tælandi í fyrra, væru ærumeiðingar. 

Musk er sóttur til saka vegna ummælasyrpu sinnar sem hann lét fjalla um Unsworth í kjölfar dramatískrar björgunar hans. Musk kallaði Unsworth „pedo guy“ og „barnanauðgara“ eftir að Unsworth gerði grín að áætlun Musk um að bjarga drengjunum með smákafbát. 

Unsworth kallaði tillögu Musks „glæfrabragð“ og sagði honum að stinga kafbátnum þar sem það meiddi.

Unsworth vilji „mjólka“ 15 mínútna frægð

Lögmenn Musks hafa haldið því fram að yfirlýsingar Musk hafi verið móðganir frekar en ásakanir og „pedo guy“ væri algeng móðgun í Suður-Afríku þar sem Musk ólst upp. 

„Við hlökkum til réttarhaldanna,“ sagði Alex Spiro, einn af lögmönnum Musk í tilkynningu sem hann sendi fréttamiðlinum Bloomberg. „Okkur skilst að þó Musk hafi beðist afsökunar þá vilji Unsworth mjólka sínar fimmtán mínútur af frægð.“

Í september kom í ljós að lögmenn Musk hefðu reynt að fá blaðamann hjá BuzzFeed til að bera vitni í málinu. Musk sendi tölvupóst til blaðamannsins, Ryan Mac, í ágúst 2018, eftir að Mac bað Musk um viðbrögð í tengslum við yfirlýsingar hans um Unsworth. 

„Ég legg til að þú hringir í fólk sem þú þekkir í Tælandi, komist að því hvað er raunverulega að gerast og hættir að verja barnaníðinga, hálfvitinn þinn,“ skrifaði Musk í tölvupóstinn. 

Musk sagði síðar að tölvupósturinn hefði einungis átt að vera á milli hans og Mac. Sá síðarnefndi var ósammála því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert