Neyðarástandi lýst yfir í Sydney

AFP

Neyðarástandi var lýst yfir í Sydney og íbúar þar varaðir við yfirvofandi hörmungum vegna kjarrelda sem geisa í landinu. Talið er að tugir nýrra elda hafi kviknað í austurhluta Ástralíu þar sem gríðarlegir þurrkar eru. 

Þetta er í fyrsta skipti sem lýsa þarf yfir neyðarástandi í þessari stærstu borg Ástralíu og nágrenni vegna elda. Segja yfirvöld að veruleg hætta sé á að fólk deyi og að heimili fólks verði eldi að bráð. 

AFP

„Það er ekkert byggt eða hannað til þess að þola þær aðstæður sem við getum átt von á undir náttúruhamförum sem þessum,“ segir Shane Fitzsimmons, slökkviliðsstjóri í New South Wales, en Sydney er í ríkinu. 

Talið er að aðstæður, mikill lofthiti og hávaðarok, muni skapa aðstæður sem minni helst á púðurtunnu á morgun. Því tók ríkisstjóri New South Wales ákvörðun um að lýsa yfir neyðarástandi í ríkinu í sjö daga. 

AFP

Þegar eru þrír látnir og þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín í norðurhluta ríkisins. Þar hafa yfir 150 hús orðið eldinum að bráð en tugir kjarrelda geisa þar. Undanfarna mánuði hafa 11 ferkílómetrar lands, svæði sem er stærra en Jamaíka eða Kosovo, orðið eldinum að bráð. 

Aðstæður hafa skánað heldur á einhverjum svæðum og fengu einhverjir íbúar að snúa aftur til síns heima í dag. En óttast er að hitinn fari hækkandi og bæti í vind á morgun. 

Þau svæði sem talið að verði verst úti eru Blue Mountains, vestur af Sydney, vínræktarsvæðið Hunter Valley og Illawarra-hérað. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert