Mótmælt fyrir utan dómshúsið í Windhoek

Mótmælendur kröfðust þess að sexmenningunum yrði ekki sleppt úr haldi …
Mótmælendur kröfðust þess að sexmenningunum yrði ekki sleppt úr haldi namibískra yfirvalda. Skjáskot úr myndbandi Informanté

Tugir mótmælenda komu saman fyrir utan dómstól í Windhoek höfuðborg Namibíu í dag og kröfðust þess að sexmenningarnir sem grunaðir eru um peningaþvætti, mútur og fleira í tengslum við Samherjaskjölin, yrðu ekki látnir lausir gegn tryggingu, en þeir komu fyrir dómara kl. 13 að íslenskum tíma.

Namibíski fjölmiðillinn The Namibian fjallar um kærurnar á hendur sexmenningunum í dag, en Bernhard Esau og Sacky Shanghala, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn landsins eru á meðal þeirra sex sem hafa verið í haldi yfir helgina vegna málsins. Hinir eru „hákarlarnir“ og frændurnir James og Tawson „Fitty“ Hatuikulipi, auk Ricardo Gustavo og Pius Mwatelulo.

Lögfræðingarnir handteknir

Ekki var hægt að klára mál þeirra á föstudag, þar sem tveir suðurafrískir lögmenn sexmenninganna voru ekki með atvinnuleyfi í Namibíu og voru handteknir og sjálfir færðir fyrir dómara. Lögmennirnir hafa báðir játað að reyna að vinna í Namibíu án atvinnuleyfis og að hafa gefið misvísandi upplýsingar við landamæraskoðun um ástæðu veru sinnar í landinu.

Samkvæmt frétt The Namibian um meint brot mannanna eins og þau horfa við namibíska ríkinu er Esau grunaður um spillingu vegna útdeilingu 55.000 tonna hrossamakrílskvóta til fyrirtækisins Namgomar Pesca á árunum 2014-2019. Shanghala, Hatuikulipi-frændurnir og Gustavo eru grunaðir um að vera aðilar að því broti, en Gustavo var stjórnandi Namgoma Pesca í Namibíu.

Þá eru þeir Esau, Shanghala, Hatuikulipi-frændur og Gustavo kærðir fyrir að hafa þegið að minnsta kosti 103 milljónir namibískra dala, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, frá fyrirtækjunum Mermaria Seafood Namibia og Esju Seafood, fyrir að tryggja að félögin myndu halda áfram að fá kvóta.

Sömu menn eru svo kærðir fyrir að hafa misnotað milliríkjasamkomulag á milli Angóla og Namibíu til þess að vera enn í stöðu til þess að útdeila kvótum samkvæmt eigin hentisemi og fyrir skattsvik, með því að láta líta út fyrir að Namgomar Pesca hefði skilað minni hagnaði á árunum 2014-2019 en raunin var.

Allir sex eru svo ákærðir fyrir peningaþvætti, fyrir að hafa reynt að fela slóð peninga með fölsuðum reikningum og dylja uppruna peninga sem fengust með ólögmætum hætti.

mbl.is