Sardínur til höfuðs Salvini

AFP

Tugir þúsunda tóku þátt í mótmælum í Róm í dag, svonefndri sardínuhreyfingu, en henni er beint gegn þjóðernisflokknum Bandalaginu og leiðtoga flokksins, Matteo Salvini, sem var áður varaforsætisráðherra Ítalíu.

Fólkið kom saman á San Giovanni-torgi og var mannmergðin slík að það minnti helst á sardínur í dós. Var útlendingahatri og stefnu landsins í útlendingamálum mótmælt harðlega.

Mattia Santori, er einn af fjórum stofnendum sardínu-hreyfingarinnar.
Mattia Santori, er einn af fjórum stofnendum sardínu-hreyfingarinnar. AFP

„Við erum mjög ánægð og náðum markmiðum okkar,“ segir einn af stofnendum grasrótarhreyfingarinnar, Mattia Santori, en yfir 100 þúsund tóku þátt í mótmælunum í dag.

„Við erum á móti fasisma, styðjum jafnrétti, erum á móti skorti á umburðarlyndi og á móti hatri í garð samkynhneigðra,“ segir Santori. 

Sardínuhreyfingin varð til í síðasta mánuði eftir að Santori, sem er frá Bologna, sendi þremur vinum sínum áríðandi skilaboð um að hitta sig daginn eftir. Þetta var nokkrum dögum áður en Salvini og félagar hans ætluðu að hefja sameiginlega kosningabaráttu fyrir héraðskosningarnar í Emilia-Romagna ásamt tveimur öðrum flokkum; flokki Silvios Berlusconis, Forza Italia, og Bræðralagi Ítalíu. 

AFP

Vinirnir fjórir sendu út boð í gegnum samfélagsmiðla og áður en þeir vissu af fjölgaði þeim hratt sem tóku þátt í mótmælunum. Salvini gerir lítið úr hreyfingunni og skrifaði á Twitter að hann væri meira fyrir kettlinga því þeir ætu sardínur þegar þeir væru svangir. 

AFP
mbl.is