Byrlaði ólyfjan og nauðgaði tugum manna

Lögreglan í Manchester birti þessa mynd af Sinaga í kjölfar …
Lögreglan í Manchester birti þessa mynd af Sinaga í kjölfar sakfellingar hans í dag. AFP

Maður sem talinn er hafa gerst sekur um hundruð nauðgana hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn 48 karlmönnum í Manchester á Englandi. 

Reynard Sinaga er 36 ára gamall maður frá Indónesíu og er talinn einn afkastamesti kynferðisglæpamaður í sögu Bretlands. Hann er talinn hafa misnotað að minnsta kosti 195 karlmenn á tveggja og hálfs árs tímabili, en hann lokkaði fórnarlömb sín á heimili sitt, byrlaði þeim ólyfjan og braut gegn þeim á meðan þau voru meðvitundarlaus.

Tekist hefur að sanna að Sinaga hafi framið 159 glæpi, þar af 136 nauðganir, en lögreglu hefur enn ekki tekist að bera kennsl á 70 fórnarlambanna.

„Þóttust vera dauðir“

Sinaga var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi, og mun hann þurfa að afplána minnst 30 ár, en samkvæmt frétt Guardian hefur fjölmiðlum með öllu verið haldið frá réttarhöldunum fjórum yfir Sinaga sem hafa staðið yfir í tvö ár. Sinaga hefur þegar hlotið 88 samskeiða lífstíðardóma, með möguleika á reynslulausn eftir 20 ár, í niðurstöðum tveggja réttarhalda í tengslum við 25 fórnarlömb. Í dómnum sem féll í dag er Sinaga dæmdur fyrir brot gegn 23 fórnarlömbum.

Í málsvörn Sinaga kom fram að fórnarlömb hans hefðu notið þess að uppfylla óra hans um að þykjast vera dauð meðan á samförum stóð. Dómarar í málum hans töldu þá skýringu einkar ótrúverðuga, en í myndskeiðum af brotunum, sem Sinaga tók upp á farsíma sinn, má gjarnan heyra fórnarlömbin hrjóta á meðan hann brýtur á þeim.

Fórnarlömbin gagnkynhneigðir ungir menn á djamminu

Sinaga flutti til Bretlands árið 2007, þá 24 ára gamall, til þess að stunda nám. Flest fórnarlamba hans voru nemar, gagnkynhneigðir unglingar og ungir menn, sem voru úti að skemmta sér með vinum sínum þegar Sinaga nálgaðist þá fyrir utan skemmtistaðina. Þeir voru yfirleitt ölvaðir og jafnvel búnir að týna vinum sínum og með rafmagnslausa síma.

Lést Sinaga þá rétta þeim hjálparhönd með því að bjóða þeim á heimili sitt skammt frá skemmtistöðunum, ýmist í nokkra drykki eða til að þeir gætu sofið úr sér á sófanum. Þegar heim til hans var komið byrlaði hann mönnunum hins vegar ólyfjan og braut gegn þeim, eins og áður segir.

Sinaga hélt eigum fórnarlamba sinna eftir sem minjagripum og leitaði þau uppi á Facebook. Hann sendi vini sínum skilaboð til að monta sig í kjölfar eins brotanna og sagði eitthvað á þessa leið: „Hann var gagnkynhneigður árið 2014. Árið 2015 gekk hann í félag samkynhneigðra hahaha.“

Saksóknarar telja að Sinaga hefði haldið brotum sínum ótrauður áfram ef eitt fórnarlamba hans hefði ekki vaknað á meðan verið var að brjóta á því árið 2017 og hringt í neyðarlínuna.

Braut á fórnarlambi í átta klukkustundir

Við rannsókn lögreglu fundust myndir og myndskeið á tveimur farsímum þar sem sjá mátti Sinaga brjóta á fjölda ungra manna og við nánari athugun fundust á tölvu hans 3,29 terabæti af mjög grófu myndefni, sem jafngildir efni 250 DVD-diska eða 300.000 ljósmynda. Meðal myndskeiða var átta klukkustunda löng upptaka af kynferðisbroti Sinaga gegn meðvitundarlausum ungum manni.

Mörg fórnarlambanna höfðu ekki hugmynd um að þeim hefði verið nauðgað fyrr en lögregla bankaði upp á hjá þeim nokkrum árum eftir brotin. Lyfin sem Sinaga notaði til að gera fórnarlömb sín meðvitundarlaus fundust aldrei.

Ætti aldrei að fá að ganga laus

Saksóknarar og lögregla segja Sinaga einstaklega hættulegan og að hann ætti aldrei að ganga laus aftur, sérstaklega í ljósi þess að hann hafi enga eftirsjá sýnt á meðan á áralöngum réttarhöldunum stóð.

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert