Fær ekki að skjóta upp flugeldum

Nigel Farage, leiðtogi Brexit-flokksins.
Nigel Farage, leiðtogi Brexit-flokksins. AFP

Borgaryfirvöld í London, höfuðborg Bretlands, hafa neitað Nigel Farage, leiðtoga Brexit-flokksins, um leyfi til þess að skjóta upp flugeldum af pramma á Thames-ánni að kvöldi 31. janúar í tilefni af formlegri útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Hugmyndin var að skjóta upp flugeldunum skammt frá breska þinghúsinu en Farage ásamt fleirum hefur skipulagt hátíðarhöld á þinghústorginu þegar útgangan mun eiga sér formlega stað. Reikna aðstandendur með í kringum 20 þúsund þátttakendum.

Fyrir vikið hafa Farage og félagar auglýst eftir einhverjum sem hafi yfir að ráða húsnæði í nágrenni þinghússins með flötu þaki þaðan sem mætti skjóta upp flugeldum. Leyfi hafði hins vegar þegar fengist fyrir því að efna til hátíðarhaldanna sem slíkra.

Farage hafði áður óskað eftir leyfi til þess að skjóta flugeldum upp í St. James-garðinum eða af þaki einhverrar af byggingum breska stjórnarráðsins en verið neitað. Gert er ráð fyrir þéttskipaðri dagskrá vegna hátíðarinnar og fjölmörgum ræðumönnum.

Boris Johnson forsætisráðherra hefur verið boðið að flytja erindi en hann hyggst ekki þiggja það boð samkvæmt talsmönnum ráðuneytis hans. Þess í stað muni hann og ríkisstjórn hans fagna hinum sögulegu tímamótum á eigin forsendum.

Fjallað er um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

mbl.is