500 kílóa sprengja fannst í Köln

Köln við lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Bandamenn gerðu miklar loftárásir á …
Köln við lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Bandamenn gerðu miklar loftárásir á borgina í stríðinu eins og fleiri þýskar borgir. Ljósmynd/Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna

Sprengjusérfræðingar gerðu óvirka sprengju í borginni Köln í Þýskalandi í morgun. Þúsundir starfsmanna í skrifstofubyggingum á svæðinu þurftu að yfirgefa svæðið og þá varð truflun á lestarsamgöngum og skipasamgöngum um Rínarfljót.

Fram kemur í frétt AFP að um hafi verið að ræða 500 kílógramma sprengju af bandarískum uppruna sem varpað hefði verið á borgina á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Borgaryfirvöld í Köln tilkynntu klukkan ellefu að íslenskum tíma að sprengjan hefði verið aftengd og þar af leiðandi væri engin hætta lengur á ferðum.

Byggingarverkamenn fundu sprengjuna á hægri bakka Rínar á mánudagskvöldið. Fáir búa á svæðinu þar sem sprengjan fannst og er aðallega um að ræða skrifstofubyggingar þar. Um 10 þúsund starfsmenn skrifstofa og fimmtán íbúar þurftu að yfirgefa svæðið. Sprengjufundurinn hafði einnig áhrif á flugumferð yfir svæðinu.

Sprengjur frá árum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa fundist reglulega í Þýskalandi frá lokum heimsstyrjaldarinnar árið 1945 en bæði Bretar og Bandaríkjamenn gerðu miklar loftárásir á borgina í styrjöldinni sem og margar fleiri þýskar borgir.

Fyrr í þessum mánuði þurftu 14 þúsund manns að yfirgefa heimili sín í borginni Dortmund eftir að tvær virkar sprengjur fundust í miðborg hennar. Þá þurftu 14 þúsund manns að yfirgefa heimili sín árið 2017 þegar sprengja upp á 1,4 tonn fannst í borginni Frankfurt.

mbl.is