Fimm Frakkar fórust í snjósleðaslysi

AFP

Litlar líkur eru á að fimm Frakkar finnist á lífi eftir að snjósleðar þeirra fóru í gegnum ís á frosnu vatni í Quebec í Kanada á þriðjudag.

Að sögn lögreglu fundust sex snjósleðar á botni Saint-Jean-vatns þar sem slysið varð á þriðjudag. Alls voru átta franskir ferðamenn í hópnum og björguðust þrír þeirra. Kanadískur fararstjóri þeirra lést eftir að hafa farið í gegnum ísinn á þriðjudagskvöld. Slysið átti sér stað þar sem rennsli er úr vatninu.

Leitarsvæðið í kringum Beemer-eyju skammt frá Lac-Saint-Jean.
Leitarsvæðið í kringum Beemer-eyju skammt frá Lac-Saint-Jean. AFP

Sveitarstjórnin hefur ákveðið að herða reglur varðandi snjósleðaferðir á þessum slóðum. Fjölmargir hafa tekið þátt í leitinni að Frökkunum, bæði er leitað úr lofti, kafarar hafa tekið þátt sem og björgunarsveitir hafa gengið meðfram vatninu. 

Samkvæmt upplýsingum frá kanadísku lögreglunni var í fyrstu mikil bjartsýni um að hópurinn fyndist á lífi, að hann hefði fundið skjól á eyju á vatninu en hefði ekki tekist að senda frá sér neyðarkall. En eftir að sleðarnir fundust á botni vatnsins er talið ólíklegt að þau hafa lifað af. Fólkið hefur verið nafngreint: Yan Thierry, 24 ára, Jean-Rene Dumoulin, 24 ára, Arnaud Antoine, 25 ára, Julien Benoit, 34 ára, og Gilles Claude, 58 ára.

Að sögn lögreglu voru það tveir úr hópnum, sem náðu að bjarga þeim þriðja upp úr vatninu, sem létu vita af slysinu. Fararstjórinn, Benoit L'Esperance, sem var 42 ára gamall og frá Montreal, var bjargað upp úr vatninu af bráðaliðum og fluttur á sjúkrahús en lést þar síðar um nóttina. 

Samkvæmt fréttum franskra fjölmiðla er Gilles Claude faðir þriggja þekktra keppenda í skíðaskotfimi. Sonur hans, Fabien, segir í viðtali við L'Equipe að hörmulegt slys hafi átt sér stað í Kanada en rætt var við hann eftir að hann hlaut brons á heimsmeistaramótinu í Slóveníu í gær. „Ég er á pallinum hér fyrir hann. Ég er viss um að hann er stoltur af okkur og ég er stoltur af því sem ég gerði hér í dag,“ sagði hann í viðtali við L'Equipe og var bróðir hans, Florent, með honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert