Ráðgátan í Skipshavn

Förin dularfullu sem krabbaveiðimaður uppgötvaði á hafsbotni við eyðivík nyrst …
Förin dularfullu sem krabbaveiðimaður uppgötvaði á hafsbotni við eyðivík nyrst í Noregi sumarið 1989, örskammt frá því sem þá voru landamærin við Sovétríkin. Ljósmynd/Norski sjóherinn

Í nyrstu byggðum Noregs, örfáa kílómetra vestan rússnesku landamæranna og álíka langt austan smábæjarins Kirkenes, er fjörðurinn Jarfjorden. Inn úr honum til vesturs gengur vík nokkur sem Skipshavn heitir, umlukt fjöllum á alla kanta. Skipshavn er óbyggð, þar eru aðeins nokkrir húskofar á stangli sem krabbaveiðimenn og útivistarfólk gista fáeinar vikur á ári.

Þrátt fyrir staðsetninguna varð Skipshavn vettvangur einnar umfangsmestu og langvinnustu hernaðaraðgerðar á friðartímum sem saga norska sjóhersins geymir.

Það er engum ofsögum sagt að sú saga hefur verið vel geymd því það er ekki fyrr en nú, 30 árum eftir dularfullan gestagang í eyðivíkinni Skipshavn, sem Tore Lasse Moen, fyrrverandi yfirmaður sérsveitar norska sjóhersins, Marinejegerkommandoen, leysir frá skjóðunni um aðgerð sem kostaði sveit hans rúmlega hálfs árs dvöl í Skipshavn, allan sólarhringinn og á tímum í tæplega 40 stiga frosti.

För á hafsbotni

Það var 10. júní 1989 sem krabbaveiðimaður nokkur kafaði í víkinni í leit að botnkrabba. Sjórinn er kaldur á sumrin á þessum norðlægu slóðum og skyggnið því gott í vatninu. Eftir nokkrar ferðir og köfun niður á 10 — 20 metra dýpi beindist athygli veiðimannsins að sérstökum ummerkjum á hafsbotninum, raunar svo sérstökum að sjóherinn hefur enn ekki viljað greina frá þeim í nokkrum smáatriðum.

Skipshavn við Jarfjorden er ekki beint í alfaraleið enda leggur …
Skipshavn við Jarfjorden er ekki beint í alfaraleið enda leggur nánast enginn leið sína þangað, utan fáeinir krabbaveiðimenn og útivistargarpar — og einstaka sinnum dularfull neðansjávarför erlendra stórvelda. Skjáskot/Google Maps

Þarna var um að ræða langar beinar línur samhliða, sem mörkuðu um það bil fimm sentimetra djúp för í sendinn hafsbotninn, ekki ólík hjólförum eftir mjóa hjólbarða. Þetta var undir lok kalda stríðsins svo tilkynning kafarans náði þegar í stað eyrum sjóhersins, Forsvarskommando Nord-Norge sem var deild Tore Lasse Moen.

„Svona tilkynningar bárust okkur nokkrum sinnum á ári, en þessi var svo sérstök að við blésum þegar í stað til aðgerða,“ segir Moen frá. Tveimur dögum síðar er kafarasveit sjóhersins mætt á staðinn með kafaraskipið KNM Draug sér til fulltingis. Taka kafararnir þegar til við að mynda hafsbotninn í og við Skipshavn.

Nokkurra mánaða gömul för

Greiningardeild sjóhersins tók þegar að rýna í myndirnar og sló því föstu að förin hlytu að vera af mannavöldum. Eitthvað hafði strokist við eða verið dregið eftir botninum á um 150 metra löngum kafla en þegar svo langt út var komið sleppti sandinum og við tók grýttur botn sem geymdi engin verksummerki.

Skipaumferð um Jarfjorden var nánast engin og víkin Skipshavn of þröng til að þar hefði skip getað verið á ferð og dregið akkeri eða veiðibúnað eftir botninum. Sérfræðingar sjóhersins mátu það svo að förin væru nokkurra mánaða gömul, líklega frá vetrinum 1988 — 1989.

„Við gerðum ekki meira þarna þá um sumarið en ákveðið var að kanna málið nánar haustið eftir [1990],“ segir Moen. Um haustið uppgötvaði kafarasveitin nokkur stórmerki. Þá voru komin ný för á botninn, augljóslega bara nokkurra daga eða vikna gömul. Þegar í stað er ákveðið að vakta Skipshavn dag og nótt. 

Í það verkefni fóru tvær sveitir frá marinejegerene, sérsveit norska sjóhersins sem var þjálfuð til að halda út í ómanneskjulegustu raunum sem fundist gátu. „Við erum að tala um allra hæfustu hermenn norska hersins. Líklega þá einu í Noregi á þessum tíma sem hefðu getað framkvæmt þetta,“ segir Moen frá.

Skálduðu upp heræfingar

Verkefni hans sjálfs var að samræma aðgerðir sveitanna á staðnum sem voru hvort tveggja gríðarlega flóknar, þar sem viðvera mannskapsins varð þegar upp var staðið yfir hálft ár, auk þess sem þær voru svo háleynilegar að ekki eitt orð fór af þeim út fyrir helgustu vé sjóhersins. Aðeins fjórir menn vissu af aðgerðinni í Skipshavn auk sérsveitarmannanna sem hurfu bókstaflega meðan á aðgerðinni stóð og var stór heræfing á fjarlægum slóðum skálduð upp frá a til ö til að skýra fjarveru þeirra.

Tuttugasta október 1990 var nær ósýnileg eftirlitsstöð sett upp handan Jarfjorden, gegnt Skipshavn, og ofan við víkina sjálfa vöktuðu tvær fjögurra manna sveitir nánasta umhverfi haukfránum augum. Mannskapurinn lifði ekki í neinum vellystingum heldur lá í gjótum undir runnum og lyngbreiðum í djúpum snjó og allt að 40 stiga frosti. Eldur eða aðrir hitagjafar komu ekki til greina í hernaðaraðgerð af þessari gráðu. Þeir voru einfaldlega ósýnilegir.

„Óþekktur farkostur“

Réttum mánuði eftir að sérsveitarmennirnir hófu vakt sína, 20. nóvember, stóð einn þeirra kvöldvakt ofan við snævi þakta víkina sem nánast var björt af tunglskini lengst norður við Barentshafið. Þetta var Trond Bolle, síðar borðum prýdd stríðshetja sem endaði ævi sína fyrir tilstilli vegsprengju í Afganistan 20 árum síðar, árið 2010.

Sérsveitarmaðurinn Trond Bolle, sem 20 árum síðar lét lífið sem …
Sérsveitarmaðurinn Trond Bolle, sem 20 árum síðar lét lífið sem stríðshetja í Afganistan, heldur hér á sel sem hann veiddi sér í eftirlitsverkefninu við Skipshavn þar sem hann lá við áttunda mann í hálft ár að fylgjast með dularfullri umferð um eyðivíkina afskekktu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Logn var veðurs, sjórinn sléttur og kyrr. Skyndilega veitti Bolle athygli einhverju sem hann lýsti í skýrslu sinni sem „breytingu á landslaginu sem færðist hægt frá landi“. Fyrir sjónir hans bar um átta metra langt farartæki á ferð skammt undan landi. Ekki langt austan víkurinnar marar fley þetta í hálfu kafi í þrjár eða fjórar mínútur áður en það sígur hægt ofan í dimman hafflötinn og hverfur sjónum.

Bolle sagði í síðari yfirheyrslu að fyrirbærið hefði verið „óþekktur farkostur, ávalur í báða enda með stóra stýriugga út úr hliðunum“, einhvers konar kafbátur eftir því menn komust næst. Bolle gerði eins nákvæmar teikningar af fleyinu og honum framast var unnt og þóttu þær um flest minna á ýmsar gerðir sovéskra smákafbáta sem þekktar voru, einkum gerðina Losos sem mikið var notuð við ýmsar njósna- og leyndaraðgerðir kalda stríðsins.

Eftirlitssveitirnar í Skipshavn sögðu einnig frá ljósagangi við víkurmynnið, blikkandi ljósum frá einhverju úti á Jarfjorden, líklega stuðningsskipi en slík fylgdu jafnan smákafbátum.

Líður að aðventu

Sérsveitarmennirnir færðu nú búðir sínar og komu sér fyrir í sjálfri víkinni, þó með sömu búsetuskilyrðum og áður, ekkert sást til þeirra. Líður nú að aðventu og 24. nóvember dregur enn til tíðinda. Aftur er það Bolle sem á kvölina, hann stendur vaktina í 37 stiga frosti og hríðarmuggu, aðeins nokkra metra frá sjávarmáli með óhindraða sýn yfir alla víkina.

Í þetta sinn veitir hann því athygli að sjórinn verður hvítfyssandi úti á víkinni þegar loftbólur stíga ört upp á yfirborðið. Farkostur sömu gerðar og í október rýfur svo hafflötinn og gerir Bolle örvæntingarfulla tilraun til að ná myndum en ljósmyndaútbúnaður hersins árið 1990 reyndist beinfrosinn í kuldanum og að litlu gagni.

Sovéskur njósnakafbátur af gerðinni Losos sem hefði getað verið fyrirbærið …
Sovéskur njósnakafbátur af gerðinni Losos sem hefði getað verið fyrirbærið sem heimsótti Skipshavn um niðdimmar nætur og skildi eftir sig torkennileg för á hafsbotni. Heimsóknirnar hættu þegar norski sjóherinn hafði ákveðið að taka gestina, með valdi ef á þyrfti að halda. Ljósmynd/Federation of American Scientists

Eftir að kafbáturinn dularfulli lætur sig hverfa eru verksummerki á hafsbotni könnuð á ný og reynast þar glæný för sama útlits og áður. Hverjir voru þarna á ferð? Grunsemdir sjóhersins beinast fyrst í austurátt, til Sovétríkjanna sem þarna áttu aðeins eitt ár ólifað. Nokkrum NATÓ-ríkjum var í lófa lagið að framkvæma ámóta kafbátaaðgerðir, að minnsta kosti Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi. En við norskan eyðifjörð, til hvers?

Klærnar sýndar

Þegar hér var komið sögu ákvað norski sjóherinn að sýna klærnar. Farkosturinn skyldi tekinn í næstu heimsókn, með valdi ef því væri að skipta. Sérsveitarmönnunum var skipað að reyna að ákvarða þjóðerni fars og áhafnar. Þetta skyldi gerast með því að ná sambandi við áhöfnina. Reyndi hún að forða sér skyldi farið stöðvað, fyrst með endurteknum viðvörunarskotum, en gengi það ekki skyldi stöðva kafbátinn með handsprengjum og öðrum léttari sprengihleðslum.

„Mannskapnum á staðnum var eftirlátið að túlka þessar skipanir, en það var ekkert markmið í sjálfu sér að sökkva bátnum eða verða einhverjum að bana,“ segir Moen. Áætlunin var að skadda farkostinn nægilega til að hann kæmist ekki úr stað og taka því næst áhöfnina tali.

Til þessa kom þó aldrei. Þessari langvinnustu samfelldu aðgerð norsks herafla frá því í síðari heimsstyrjöldinni lauk um páskaleytið 1991. Þá var ljóst að gestirnir dularfullu höfðu komið í sína síðustu heimsókn.

„Þetta eru hreinar getgátur en við gátum ekki útilokað að þeir sem stóðu á bak við þessa aðgerð hefðu fengið einhvers konar aðvörun eftir óþekktum leiðum um að eitthvað alvarlegt gæti gerst ef þessu lyki ekki,“ segir Moen og telur að aðgerðin hafi þar af leiðandi heppnast vel þótt engin svör hafi fengist. Hann segir öll gögn aðgerðarinnar þó tala einu máli: Atburðirnir í Skipshavn voru ólöglegar aðgerðir erlends ríkis á norsku yfirráðasvæði á friðartímum.

25.000 km strandlengja

Ljóst er að það var fyrir hreina tilviljun sem þessar dularfullu kafbátaferðir uppgötvuðust. Sé einhvers staðar kjörlendi fyrir njósnakafbáta að athafna sig óséðir er það við norska firði þar sem víðáttan er nánast óþrjótandi. Þótt Noregur sé um 1.750 kílómetrar í loftlínu frá suðri til norðurs er strandlengjan um 25.000 kílómetrar vegna hinna óteljandi mörgu fjarða og eyja. Til samanburðar má geta þess að loftlína frá Ósló til Sydney í Ástralíu er rúmlega 16.000 km.

Sovéskar njósnaaðgerðir við strendur Svíþjóðar voru til dæmis mun flóknari fyrir þá sem að þeim stóðu svo sem ráða má af hinni sögufrægu uppákomu sem sænski sjóherinn gaf nafnið „Whiskey on the rocks“ þegar sovéskur kafbátur af gerðinni Whiskey strandaði beint fyrir utan flotastöð sænska sjóhersins í Karlskrona árið 1981. Reyndar fékk norskur togari líka sovéskan kafbát í trollið úti fyrir Stavanger árið 1984 en fyrir utan þessi tvö atvik hefur líklega margur sovéskur og síðar rússneskur kafbáturinn plægt hafdjúpin á norsku yfirráðasvæði óséður.

Tímabilið 1980 til 1997 telur norski herinn 84 atvik trúverðug, þar sem talið er að raunverulega hafi sést til kafbáta erlendra ríkja við Noreg. Ekki voru allar eftirlitsaðgerðir svo háþróaðar að þar færu þrautþjálfaðir sérsveitarmenn. Einn eftirlitsaðilinn var ekkjan „Turid“, einsetukona sem bjó lengst úti á nesi einu sem skagaði í sjó fram. Norski sjóherinn afhenti henni öflugan kíki og bað hana að líta annað slagið út á sjó og tilkynna um sæi hún einhverja umferð annarra farartækja en fiskibáta. Hlaut „Turid“ einhver laun fyrir vikið?

„Nei,“ svarar Moen, „það kom fyrir að ég fór út í búð og keypti tvo þrjá sígarettupakka og sendi henni. Og svo fékk hún jólakort frá okkur.“

Norski sjóherinn gefur auðvitað aldrei upp hver „Turid“ var eða hvort hún sá nokkurn tíma eitthvað sem máli skipti fyrir varnir Noregs.

mbl.is