Hlýddi reglum og gat ekki kvatt móður sína

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte.
Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte. AFP

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, gat ekki heimsótt móður sína á dánarbeðinum vegna sóttvarnareglna á kórónuveirutímum. Rutte fór að fyrirmælum sem giltu í landinu og heimsótti hana ekki vikum saman en reglum þar að lútandi var breytt í gær. 

Rutte greindi frá andláti móður sinnar, Mieke Rutte-Dilling, í gær en hún var 96 ára að aldri er hún lést á hjúkrunarheimili í Haag 13. maí. Tæpum tveimur mánuðum eftir að hollensk stjórnvöld komu á samkomubanni vegna veirunnar. Í gær voru heimsóknir, með miklum takmörkunum, heimilaðar á hollenskum hjúkrunarheimilum. Um miðjan júní verður öllum hömlum á heimsóknum á hjúkrunarheimilum aflétt.

Frá Vondel-garðinum í Amsterdam um helgina.
Frá Vondel-garðinum í Amsterdam um helgina. AFP

Fréttin um Rutte kom á sama tíma og helsti ráðgjafi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, Dominic Cummings, fjallaði um brot á samkomubanni á fundi með blaðamönnum. 

Bor­is John­son sagði um helgina að Cumm­ings hefði hagað sér „skyn­sam­lega, lög­lega og af heil­ind­um“ þegar hann ákvað að ferðast til Norðaust­ur-Eng­lands til að koma börn­um sín­um í pöss­un þegar hann og kon­an hans voru við það að verða óvinnu­fær vegna veirunn­ar.

Áður hafði Cumm­ings ferðast til Norðaust­ur-Eng­lands með eig­in­konu sinni sem sýndi ein­kenni COVID-19.

Talsmaður Rutte segir í samtali við AFP-fréttastofuna að forsætisráðherrann hafi fylgt reglum í hvívetna. Fjallað hafði verið um það í hollenskum fjölmiðlum að Rutte hefði ekki brotið reglurnar og því ekki getað kvatt móður sína áður en hún lést. 

Museumplein í Amsterdam.
Museumplein í Amsterdam. AFP

Móðir hans lést ekki úr COVID-19 en á hjúkrunarheimilinu þar sem hún bjó komu upp smit að því er segir í fréttum hollenskra fjölmiðla. Rutte sagði að hann minntist hennar með söknuði og fjölskyldan ætti góðar minningar um hana. „Ég er einnig þakklátur fyrir hvað við fengum að hafa hana lengi hjá okkur.“

Við fjölskyldan verðum nú að kveðja hana og vonumst til þess að geta tekist á við þessa miklu sorg með frið í hjarta í náinni framtíð bætti Rutte við. 

Lögreglan rýmdi Park Somerlust í Amsterdam í síðustu viku þar …
Lögreglan rýmdi Park Somerlust í Amsterdam í síðustu viku þar sem fólk var ekki að virða 1,5 metra regluna. AFP

Alls  hafa 45.445 kórónuveirusmit verið staðfest í Hollandi og 5.830 dauðsföll. Hollendingar hafa ekki gengið jafn langt í lokunum og mörg önnur ríki Evrópu.

Þegar fyrstu smit voru greind í Hollandi í mars var almenningi ráðlagt að forðast ferðalög til og frá svæðum þar sem smit voru. Þegar faraldurinn breiddist út var allt gert til þess að koma í veg fyrir frekari smit og ávarpaði Rutte þjóð sína í sjónvarpi.

Hann sagðist treysta þjóðinni til að sýna ábyrgð  og hvatti fólk til að halda sig sem mest heima. Sett var 1,5 metra fjarlægðaregla og þeir sem fundu fyrir einkennum eða voru veikir voru beðnir um að fara í sóttkví eða einangrun. Ekki hefur verið farið í almennar sýnatökur þannig að tölur um fjölda smita er að öllum líkindum ekki rétt. 

AFP

Jafnframt var skólum, skrifstofum, veitingastöðum og börum lokað. Vinna sem krafðist nándar var stöðvuð og samkomubann sett á. Aftur á móti var ekki útgöngubann í líkingu við það sem hefur gilt á Ítalíu, Frakklandi og Spáni. Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að draga úr hömlum. 

Veitingastaðir, barir og söfn verða opnuð að nýju 1. júní en kynlífsklúbbar verða lokaðir þangað til í september. Andilitsgrímur verður skylda í almenningssamgöngum í júní og framhaldsskólar verða opnaðir í júní. Leik- og grunnskólar hófu starfsemi fyrr í mánuðinum. 

Á veitingastöðum, börum, söfnum og leikhúsum verða fjöldatakmarkanir og miðaðar við 30 manns. Eins gildir 1,5 metra reglan áfram. Líkamsræktarstöðvar og gufuböð verða lokuð fram í september og það sama á við um kaffihús sem selja kannabis. 

Úrvalsdeildin í knattspyrnu mun einnig hefjast að nýju í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert