Hótar að færa landsþing vegna fjöldatakmarkana

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vill tryggja að allir flokksmenn Repúblikanaflokksins …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vill tryggja að allir flokksmenn Repúblikanaflokksins sem vilja sækja landsþing flokksins komist að. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað að færa landsþing Repúblikanaflokksins frá Norður-Karólínu ef fjöldatakmarkanir verða settar á vegna kórónuveirufaraldursins. 

Landsþingið á að fara fram í ríkinu 24.-27. ágúst. Í gær fullyrti Trump að þingið yrði haldið annars staðar ef flokksmenn verði að hörfa frá sökum fjöldatakmarkana sem gilda um samkomur í Norður-Karólínu. Trump gagnrýndi ríkisstjórann og demókratann Roy Cooper á Twitter og sagði hann enn vera í „lokunarham“ og gæti ekki staðfest að landsþing Repúblikanaflokksins gæti farið fram án takmarkana í borginni Charlotte í ágúst. 

Fjöldi látinna í Bandaríkjunum af völdum veirunnar nálgast óðum 100 þúsund og er hvergi hærri í heiminum. 

Talsmaður Coopers segir yfirvöld í ríkinu treysta á upplýsingar og vísindaleg gögn og að markmið þeirra sé að tryggja öryggi íbúa ríkisins. 

Trump hefur ekki sagt hvert hann hyggst flytja landsfundinn, en blæs á sögusagnir þess efnis að Miami verði fyrir valinu. 

Tilgangur landsþingsins er fyrst og fremst að útnefna Trump formlega sem frambjóðanda flokksins. Forsetakosningar fara fram 3. nóvember og sækist Trump eftir endurkjöri.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert