Bandaríkjamenn líklega áfram útilokaðir frá ESB

Til stendur að opna landamæri Evrópusambandsins að einhverju leyti 1. …
Til stendur að opna landamæri Evrópusambandsins að einhverju leyti 1. júlí. AFP

Til skoðunar er hjá stofnunum Evrópusambandsins að heimila Bandaríkjamönnum, og íbúum annarra ríkja sem ekki þykja hafa náð tökum á kórónuveirufaraldrinum, ekki að ferðast til Evrópusambandsins er ytri landamæri þess verða opnuð að nýju 1. júlí.

Ytri landamærin hafa verið lokuð frá því um miðjan mars og hefur frá þeim tíma verið óheimilt að ferðast til Evrópusambands- og Schengen-ríkja, þ.m.t. Íslands, frá öðrum löndum.  

Í drögum að nýjum reglum, sem NY Times hefur undir höndum, eru Bandaríkin á lista ásamt Rússlandi og Brasilíu yfir þau ríki sem ekki telst öruggt að opna á ferðalög frá.

Óvíst er hver áhrif reglnanna yrðu á ferðir til Íslands og annarra Schengen-ríkja sem ekki eru í ESB.

Margfaldur munur á fjölda nýrra tilfella

Á sama tíma og nýjum tilfellum kórónuveiru hefur snarfækkað í Evrópu, frá því er verst lét, hefur enginn samdráttur orðið að ráði í Bandaríkjunum. Í gær greindust þar í landi 33.315 tilfelli veirunnar, en flest voru ný tilfelli 24. apríl eða 35.930. Alls hafa 2,3 milljónir greinst með veiruna krýndu í Bandaríkjunum, og 120.000 látið lífið, meira en í nokkru öðru landi.

Bandaríkin lokuðu landamærum fyrir Evrópubúum 12. mars þegar miðja faraldursins …
Bandaríkin lokuðu landamærum fyrir Evrópubúum 12. mars þegar miðja faraldursins var í álfunni.

Haft er eftir ónefndum heimildarmönnum innan stjórnkerfis Evrópusambandsins að listinn yfir örugg ríki byggi á nokkrum vísindalegum atriðum er varða stöðu kórónuveirunnar í landinu, svo sem fjölda nýrra tilfella á hverja 100.000 íbúa síðustu 14 daga. Í Bandaríkjunum er þetta hlutfall 107, í Brasilíu 190 og í Rússlandi 80 en til samanburðar er hlutfallið 16 í Evrópusambandinu.

Í grein NY Times segir að tillögurnar séu áfellisdómur yfir störfum Bandaríkjaforseta, en jafnframt að ljóst sé að ákvörðunin muni hafa miklar efnahagslegar og stjórnmálalegar afleiðingar enda heimsækja milljónir Bandaríkjamanna Evrópu ár hvert, einkum á sumrin.

mbl.is