Verður væntanlega ákærð

AFP

Hvít kona á yfir höfði sér ákæru fyrir að hafa hringt í Neyðarlínuna í  New York þegar svartur maður bað hana um að setja ól á hund sem hún var að viðra í Central Park. Konan, Amy Cooper, er sökuð um að hafa borið fram falskar ásakanir sem er saknæmt athæfi. Hún á yfir höfði sér allt að eins árs fangelsi. 

Myndskeið sem sýndi Amy Cooper hringja í 911 fór víða á samfélagsmiðlum og missti hún starfið sem og hundinn í kjölfar atviksins. Hún hefur beðist afsökunar á símtalinu og viðbrögðum sínum og maðurinn sem varð fyrir fordómunum kærði hana ekki.

Samkvæmt frétt BBC átti atvikið sér stað 25. maí, sama dag og George Floyd var drepinn af lögreglu. 

Héraðssaksóknari í Manhattan, Cyrus Vance, sagði í gær að skrifstofa saksóknara væri að undirbúa ákæru á hendur Cooper fyrir að hafa borið fram falskar ásakanir en maðurinn sem hún kvartaði undan er fuglaáhugamaður og var við fuglaskoðun í garðinum þegar Cooper kvartaði undan honum. Lausaganga hunda er bönnuð í Central Park.

Cooper sagði við starfsmanna Neyðarlínunnar að hún væri í hættu og eins hundurinn þar sem þau væru stödd í skógi vöxnu svæði í garðinum. „Það er maður, Bandarískur af afrískum uppruna, með reiðhjólahjálm að taka mig upp og hóta mér og hundinum mínum,“ segir Cooper í samtalinu og biður um að lögregla verði send á vettvang eins og skot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert