Hvarf fjögurra ára drengs heltekur Ítalíu

Viviani Parisi og Gioele.
Viviani Parisi og Gioele. Ljósmynd/Twitter

Umfangsmikil leit stendur yfir á Ítalíu að Gioele, fjögurra ára dreng, sem sást síðast með móður sinni í byrjun ágústmánaðar. Móðirin fannst síðar látin við grunsamlegar aðstæður í skógi nálægt bænum Caronia á Sikiley.

Viviani Parisi, 43 ára plötusnúður og móðir Gioele, sást síðast á lífi að morgni 3. ágúst, þegar hún klifraði yfir varnargirðingu á hraðvegi á Sikiley eftir minni háttar umferðarslys. Eitt vitni segir hana hafa haldið á barni en annað vitni segir að hún hafi verið ein á ferð.

Fimm dögum síðar fannst hún látin við háspennumastur í skógi við bæinn Caronia. Ljósmyndir af henni brosandi með Gioele í fanginu hafa verið í forgrunni í flestum ítölskum miðlum síðustu daga.

Lögreglumenn á vettvangi.
Lögreglumenn á vettvangi. Ljósmynd/Il Fatto Quotidiano

Slys, sjálfsvíg eða manndráp

Saksóknarinn Angelo Cavallo, sem fer fyrir rannsókn málsins segir það óljóst hvernig andlát hennar bar að garði – hvort um hafi verið að ræða slys, sjálfsvíg eða jafnvel manndráp.

Ein kenning er að hún hafi fallið niður úr háspennumastrinu og látið lífið og að Gioele hafi ráfað um skóginn í leit að hjálp og hafi týnst. Önnur kenning er að Parisi hafi verið myrt og að drengnum hafi verið rænt.

Samkvæmt meinafræðingi sem skoðaði lík Parisi eru líkur á því að hún hafi látið lífið á þeim stað sem hún fannst á. Engir sýnilegir áverkar eða sár voru á líkinu fyrir utan að annar handleggur hennar var brotinn á mörgum stöðum. Rotnun líksins gerði það að verkum að ómögulegt er að segja til um það hvort að þrengt hafi verið að hálsi hennar.

Ein kenning er að hún hafi fallið úr háspennumastrinu.
Ein kenning er að hún hafi fallið úr háspennumastrinu. Ljósmynd/Il Fatto Quotidiano

Þunglyndið versnaði á meðan útgöngubannið var í gildi

Parisi sagði eiginmanni sínum áður en hún fór úr húsi 3. ágúst að hún væri að fara til borgarinnar Messina á Sikiley að versla skó. Hún náði aldrei þangað en öryggismyndavélar náðu myndum af bíl hennar þegar hún keyrði inn á hraðveginn. Ekki var hægt að greina á myndunu hvort að Gioele væri í aftursæti bifreiðarinnar.

Eiginmaðurinn, Danielo Mondelo, sagði í samtali við ítalskan fjölmiðil að Parisi hefði glímt við þunglyndi sem hafi versnað á meðan útgöngubannið var í gildi á Ítalíu vegna kórónuveirufaraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert