Facebook lokar gervisíðum

AFP

Facebook lokaði síðum og fölskum reikningum sem tengjast rússneskum útsendurum. Síðurnar þóttust reka óháða fréttaveitu en í tilkynningu frá Facebook kom fram að umrædd fréttaveita tengdist rússnesku fyrirtæki sem sökuð er um afskipti af bandarísku forsetakosningunum fyrir fjórum árum.

Twitter lokaði einnig fimm síðum tengdum sömu útsendurum.

Fölsku síðurnar snerust um Peace Data, fréttaveitu sem sagðist vera óháður fjölmiðill en Rússar fengu meðal annars sjálfstætt starfandi blaðamenn til að skrifa þar um stjórnmál á fölskum forsendum. 

Fréttirnar þykja koma á áhugaverðum tíma en eftir tvo mánuði verður kosið milli Donald Trump Bandaríkjaforseta og Joe Biden í forsetakosningum vestanhafs.

Fram kom í tilkynningu frá Facebook og Twitter í gær að ákveðið hefði verið að loka síðunum eftir samvinnu með bandarísku leyniþjónustunni en Peace Date reyndi að hafa áhrif á vinstrisinnaða kjósendur vestanhafs.

Facebook lét loka 13 reikningum og tveimur síðum. Öllu hafi verið lokað áður en það komast á flug en síðurnar voru ekki með marga fylgjendur og kveðst Facebook betur í stakk búið til að loka á slíkar síður nú en áður.

Frétt BBC.

mbl.is