Héraðskosningar í skugga eitrunar

Rússneskir kjósendur ganga að kjörborðinu í 41 af 65 héruðum …
Rússneskir kjósendur ganga að kjörborðinu í 41 af 65 héruðum Rússlands í dag. AFP

Héraðskosningar fara nú fram í Rússlandi, en kosið er í 41 af 85 héruðum landsins um ríkisstjóra og þingmenn til héraðsþinga. Kjósendur gengu að kjörborðinu með grímur fyrir andlitum og hanska vegna kórónuveirunnar, og þurftu þeir einnig að láta hitamæla sig. Kosningarnar fara fram í skugga Navalní-málsins, en hann var í miðri kosningabaráttu þegar eitrað var fyrir honum í síðasta mánuði. 

Litið er á kosningarnar sem prófstein á þann stuðning sem stjórnarflokkurinn Sameinað Rússland nýtur nú, en vinsældir hans hafa dalað að undanförnu í skoðanakönnunum vegna bágborins efnahagsástands. 

Þá gæti umræða um eitrunarmál stjórnarandstöðuleiðtogans Alexeis Navalnís einnig orðið til þess að hafa áhrif á kjósendur, en stuðningsmenn hans telja að rússnesk stjórnvöld beri ábyrgðina á því að eitrað var fyrir hann með taugaeitrinu Novichok, en talsmenn Kremlar hafa borið þær ásakanir til baka.

Navalní var á ferðalagi um Síberíu þegar hann veiktist, en hann lét setja upp kerfi á netinu þar sem kjósendur gátu séð hvaða frambjóðanda stjórnarandstöðunnar það ætti að styðja til að eiga sem mesta möguleika á að fella frambjóðanda stjórnarflokksins. 

Ágreiningur endað með handalögmálum

Kjörsókn hefur verið mikil, en opnað var fyrir kjörstaði á föstudaginn. Eftirlitsaðilinn Golos sagði hins vegar að sér hefðu borist fjöldi kvartanna um að eftirlitsmenn hefðu ekki fengið að skoða aðstæður á kjörstað, og að sumstaðar hefði ágreiningurinn endað með „handalögmálum“. 

Þá hefðu borist kvartanir um að embættismenn á kjörstað hefðu reynt að skipta út greiddum atkvæðum fyrir önnur sem þeir sjálfir hefðu merkt við. Ella Pamfilova, formaður kjörstjórnar, sagði hins vegar þær ásakanir vera „hlutdrlgar og grimmar“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert