„Við munum ekki fyrirgefa“

Þúsundir manna lögðu leið sína í gær að útför rússneska stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní. Hrópaði hluti hópsins slagorð gegn stríðsrekstri Rússa í Úkraínu, um leið og hann mótmælti stjórnarfarinu í Rússlandi. Einnig heyrðust slagorð á borð við „Niður með morðingjana“, „Rússland verður frjálst“ og „Við munum ekki fyrirgefa“.

Lögreglan fylgdist grannt með því sem fram fór við útförina en réðist ekki í fjöldahandtökur í höfuðborginni eins og óttast hafði verið fyrir fram. Rússnesku mannréttindasamtökin OVD-info sögðu hins vegar í gærkvöldi að rúmlega 45 manns hefðu verið handteknir vegna óspekta sem tengdust útför Navalnís. Þar af voru 18 manns handteknir í Novosíbirsk en einungis sex í Moskvuborg.

Prestur sést hér búa um lík Navalnís í miðri útfararathöfninni …
Prestur sést hér búa um lík Navalnís í miðri útfararathöfninni skömmu áður en kistu hans var lokað. AFP/Dmitrí Lebedev/Kommersant Photo

Athöfnin sjálf var stutt samkvæmt skipun stjórnvalda og tiltölulega fámenn, en fjöldi fólks beið fyrir utan kirkjuna í löngum röðum. Lík Navalnís lá í opinni kistu í upphafi athafnarinnar og kysstu foreldar hans, Anatolí og Ljúdmíla, son sinn á ennið áður en kistan var lokuð og borin til grafar.

Ljúdmíla Navalnaja og Anatolí Navalní,foreldrar Navalnís.
Ljúdmíla Navalnaja og Anatolí Navalní,foreldrar Navalnís. AFP/Olga Maltseva

Var kista hans lögð í gröfina á meðan tvö lög voru spiluð, annars vegar My Way með Frank Sinatra, og hins vegar lag úr Tortímandanum 2, uppáhaldskvikmynd Navalnís. Stöðugur straumur fólks lagði leið sína að gröfinni eftir útförina og skildi eftir blóm eða kastaði mold á kistuna.

Á meðal þeirra sem sóttu jarðarförina voru sendiherrar Bandaríkjanna, Frakklands og Þýskalands, en auk þess mátti einnig sjá nokkra rússneska stjórnarandstæðinga við leiði Navalnís.

Hrósaði hugrekki Rússa

Rússnesk stjórnvöld reyndu fyrir fram að gera lítið úr jarðarför Navalnís og sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, t.d. að Kremlverjar hefðu engin skilaboð handa fjölskyldu hans á útfarardaginn. Talsmaður Navalní-fjölskyldunnar sagði á móti að fjölskyldan hefði skilaboð handa stjórnvöldum, sem hefðu myrt Alexei. Þá varaði Peskov við því að „óheimill mannsöfnuður“ við útförina myndi kalla á viðbrögð lögreglu, og mátti sjá mikinn fjölda óeirðalögreglumanna í nágrenni kirkjunnar þar sem útförin fór fram, auk þess sem leyniskyttur tóku sér stöðu á húsþökum þar hjá. Lögreglan lét þó ekki til skarar skríða gegn mannfjöldanum.

Júlía Navalnaja, ekkja Navalnís, sendi hinstu kveðju sína á Instagram, en hún er búsett utan Rússlands ásamt tveimur börnum þeirra. Sagðist hún ekki vita hvernig hún ætti að lifa án hans, en hún myndi reyna að gera hann hamingjusaman og stoltan þar sem hann væri á himnum.

Júlía Navalnaja, ekkja Navalnís.
Júlía Navalnaja, ekkja Navalnís. AFP/Frederick Florin

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert