Ofsafengnar vindhviður á Grikklandi

Skjáskot/EUMETSAT

Hvirfilbylurinn Ianos reið yfir vesturhluta Grikklands í dag og mun áhrifa hans gæta áfram enn. Hann hefur truflað ferðalög og valdið flóðum og rafmagnsleysi á nokkrum eyjum við Jónahaf. 

„Við stöndum frammi fyrir erfiðum veðuraðstæðum, vindi og gífurlega mikilli úrkomu,“ sagði Nikos Hardalias, yfirmaður almannavarna. 

Vindhviður bylsins eru ofsafengnar og hafa skollið á á allt að 117 kílómetra hraða á klukkustund, samkvæmt almannavörnum Grikklands. Tré hafa víða fallið en enn hafa engar fregnir borist af slysum á fólki. 

Bátur sem er staddur fyrir utan strendur Grikklands með 55 flóttamenn innanborðs er í brýnum vanda vegna hvassviðrisins, að sögn strandgæslu Grikklands. Tveir aðrir bátar hafa sokkið.

„Eins og staðan er núna getum við ekki sent skip til að hjálpa,“ sagði talsmaður strandgæslunnar við fréttamann AFP. Skip sem eru í grennd við bátinn hafa þó verið beðin um að aðstoða hann. 

Útlit er fyrir að veðurofsinn muni í fyrsta lagi ganga yfir annað kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert