Árásarmaðurinn bað nemendur að benda á kennarann

Fjöldi fólks hefur lag blóm og teikningar við skólann þar …
Fjöldi fólks hefur lag blóm og teikningar við skólann þar sem Samuel Paty kenndi. AFP

Karlmaðurinn sem afhöfðaði kennarann Samuel Paty í Frakklandi í gær beið fyrir utan skólann drykklanga stund og bað nemendur að lýsa útliti kennarans fyrir sér. BBC greinir frá. 

Eftir að nemendur höfðu bent honum á Paty veitti hann honum eftirför, en Paty var fótgangandi á leið heim úr vinnu. Hann veittist að honum með hnífi og afhöfðaði hann. Árásarmaðurinn birti síðan myndir af líki hans á samfélagsmiðlum.

Paty hafði tíu dög­um áður rætt við fram­halds­skóla­nem­end­ur sína og sýnt þeim skop­mynd­ir af Múhameð spámanni.

Árásarmaðurinn var skotinn til bana eftir að hann hafði skotið til lögreglu með loftbyssu. Lögreglan í Frakklandi hefur handtekið níu manns í tengslum við morðið. 

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í gær að morðið væri hryðjuverk og að Paty hefði verið myrtur af því hann fræddi nemendur sína um tjáningarfrelsið. 

Árásarmaðurinn er, samkvæmt BBC, 18 ára gamall og ættaður frá Tsjetsjeníu. Hann fæddist í Moskvu í Rússlandi en kom til Frakklands sem flóttamaður þegar hann var ungur drengur. Hann hafði enga augljósa tengingu við kennarann né skólann að sögn Jean-Francois Ricards, ríkissaksóknara hryðjuverkamála í Frakklandi.

Ríkissaksóknari hryðuverkamála Jean-Francois Ricard.
Ríkissaksóknari hryðuverkamála Jean-Francois Ricard. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina