Segir prófanir á bóluefnum byggja á takmörkuðu mengi

Fjölmargir aðilar eru að þróa bóluefni gegn Covid-19.
Fjölmargir aðilar eru að þróa bóluefni gegn Covid-19. AFP

Engin þeirra prófana sem gerð hefur verið með nýtt bóluefni gegn kórónuveirunni er hönnuð með það fyrir augum að greina breytur þegar kemur að alvarlegum tilfellum, svo sem þegar kemur að innlögnum á sjúkrahús eða gjörgæslu, eða þegar sjúklingar láta lífið. Þetta kemur fram í grein sem Peter Doshi, sérfræðingur í heilbrigðismálum, skrifaði í læknatímaritið BMJ.

Varaði Doshi við því að jafnvel þær prófanir sem eru komnar á þriðja stig í kapphlaupinu um nýtt bóluefni við Covid-19 geti ekki sannað að lyfin komi í veg fyrir smit. Sagði hann jafnframt að þeir sem væru að bíða eftir stórum áfanga í þróun bóluefnanna yrðu fyrir vonbrigðum og að sum þeirra bóluefna sem væru í þróun væru einungis talin minnka líkur á smiti um 30%.

Á þriðja stigi prófana eru bóluefni jafnan prófuð á tugum þúsunda einstaklinga í mismunandi heimsálfum. Doshi bendir hins vegar á að jafnvel stærstu prófanirnar séu aðeins að skoða væg tilfelli sjúkdómsins, en það sé komið til vegna þess að stærstur hluti þeirra sem smitast hafa væg eða engin einkenni sjúkdómsins.

Segir hann jafnframt að fáar, ef einhverjar prófanir horfi sérstaklega til þeirra sem eldi séu, sem séu viðkvæmasti hópurinn. Án þess að horfa sérstaklega til þessa viðkvæmu hópa segir Doshi að lítill sem enginn grundvöllur sé fyrir ályktunum um virkni bóluefnisins þegar kemur að verstu tilfellunum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert