Lagður inn á sjúkrahús rétt fyrir vitnaleiðslur

Ayoub El Khazzani, Mohamed Bakkali, Bilal Chatra og Redouane El …
Ayoub El Khazzani, Mohamed Bakkali, Bilal Chatra og Redouane El Amrani Ezzerrifi eru allir ákærðir fyrir aðild að hryðjuverkatilrauninni. AFP

Fyrrverandi hermaður sem tók þátt í að stöðva tilraun til að fremja hryðjuverkaárs í franskri lest fyrir fimm árum var lagður inn á sjúkrahús í gær. Hann átti að bera vitni fyrir dómi í málinu í París í dag.

Spencer Stone, sem er 28 ára gamall og var í bandaríska hernum árið 2015, var lagður inn á sjúkrahús við komuna til Parísar í gær að sögn lögmanns hans, Thibault de Montbrial. Ekki var upplýst um hvers eðlis veikindi hans væru og því ekki ljóst hvort Stone gæti borið vitni klukkan 16 í dag líkt og stóð til.

AFP

Farþegar í hraðlest á leið frá París til Amsterdam 21. ágúst 2015 yfirbuguðu árásarmanninn, Ayoub El Khazzan, fljótlega eftir að hann ruddist út af klósetti lestarinnar þungvopnaður. Um 150 farþegar voru í sama lestarvagni og Khazzani en hann var með AK47-riffil og tæplega 300 byssukúlur í farteskinu. 

Einn farþeganna, Mark Moogalian, sem er fransk-bandarískur prófessor, reif riffilinn af Khazzani en þá tók árásarmaðurinn upp skammbyssu, skaut og særði Moogalian. Tveir bandarískir hermenn, Stone og Alek Skarlatos, afvopnuðu og yfirbuguðu árásarmanninn eftir að hafa heyrt hávaðann. Félagi hermannanna, Anthony Sadler, kom þeim til aðstoðar en þremenningarnir voru í bakpokaferðalagi um Evrópu.

AFP

Meðal þeirra sem voru á lista yfir möguleg vitni er bandaríski leikstjórinn Clint Eastwood en kvikmynd hans The 15:17 to Paris frá árinu 2018 er byggð á atburðunum um borð í lestinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert