Norwegian sker harkalega niður

Boeing 787 Dreamliner hefur verið í lykilhlutverki á lengri flugleiðum …
Boeing 787 Dreamliner hefur verið í lykilhlutverki á lengri flugleiðum Norwegian. Ljósmynd/Norwegian

Stjórnendur norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian Air Shuttle kynntu í morgun nýtt og einfaldað viðskiptamódel fyrir fyrirtækið. Er því ætlað að koma í veg fyrir gjaldþrot félagsins sem hefur staðið mjög höllum fæti vegna áhrifa kórónuveirunnar. Fjárhagsstaða félagsins var raunar veikluð áður en til faraldursins kom en hann hefur valdið miklum búsifjum hjá því, líkt og nær öllum flugfélögum heimsins síðustu misseri.

Samkvæmt hinni nýju áætlun hyggst fyrirtækið leggja megináherslu á heimamarkað sinn í Noregi, í Skandinavíu og á stærstu markaði í Evrópu.

„Styttri flugleggir hafa alla tíð verið hryggjarstykkið í starfsemi Norwegian og mun verða undirstaðan að nýju framtíðarviðskiptamódeli,“ segir Jacob Schram, forstjóri félagsins, í tengslum við hina nýju stefnu.

Samkvæmt áætlun félagsins er ætlunin að þjónusta markaðinn með 50 hefðbundnum farþegaþotum (ekki breiðþotum) og að fjölga þeim í 70 árið 2022. Áður en til kasta kórónuveirunnar kom var flugvélafloti félagsins farinn að nálgast annað hundraðið.

Með aðgerðunum er ætlunin að lækka skuldir félagsins verulega þannig að þær muni standa í 20 milljörðum norskra króna, jafnvirði ríflega 300 milljarða íslenskra króna, og safna 4-5 milljörðum norskra króna, jafnvirði 60-76 milljarða íslenskra króna, í formi nýs hlutafjár.

„Ég er stoltur af því að geta kynnt kraftmikla viðskiptaáætlun í dag sem mun verða nýtt upphaf fyrir fyrirtækið. Með því að leggja áherslu á styttri flugleiðirnar miðum við að því að laða að okkur núverandi og nýja hluthafa, sinna viðskiptavinum og styðja við innviði og ferðaþjónustuna í Noregi og á Norðurlöndum og í Evrópu.“

Dótturfélög fara í þrot

Samkvæmt fréttum Dagens Nærlingsliv í Noregi er talið að aðgerðirnar sem nú er gripið til muni hafa áhrif á störf 2.000 starfsmanna í Noregi og í öðrum ríkjum. Lengri flugleggir félagsins hafa verið reknir að stórum hluta í gegnum dótturfélög á Ítalíu, í Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Verða þessi dótturfélög í raun látin fara í þrot.

Hlutabréfaverð Norwegian hefur lækkað skarpt í kauphöllinni í Ósló í morgun og nemur lækkunin um 6%.

mbl.is