Verstu átök sem brotist hafa út í 40 ár

Í þrjá daga hafa hollenskir lögreglumenn og mótmælendur tekist á í ýmsum borgum víða um Holland. Mótmælendurnir mótmæla útgöngubanni þar í landi. Óeirðalögreglumenn skutu viðvörunarskotum og notuðu táragas til þess að rýma götur í Rotterdam.

BBC greinir frá þessu. 

Ófriðurinn hófst um helgina þar sem mótmælendur létu í sér heyra vegna nýrra takmarkana vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í Hollandi. Hollenska lögreglan lýsir átökum mótmælenda og lögreglu á sunnudag sem þeim verstu á síðastliðnum fjórum áratugum.

Mark Rutte forsætisráðherra Hollands hefur fordæmt aðgerðir mótmælenda og kallað þær „glæpsamlegt ofbeldi“.

Eldur kveiktur á götum Haag

Mótmælendur gripu til ofbeldis í fleiri borgum um allt Holland í dag. Óeirðalögreglan lenti í átökum við mótmælendur í Amsterdam, Amersfoort, Geelen og, eins og áður segir, Rotterdam.

Eldur var kveiktur á götum Haag en þar reyndu lögreglumenn á reiðhjólum að ýta við mönnum sem hentu steinum og flugeldum. 

Mikill fjöldi fólks hefur verið handtekinn í Amsterdam vegna mótmæla sem hafa leitt af sér eyðileggingu. 

Lögreglumaður vopnaður kylfu og skildi.
Lögreglumaður vopnaður kylfu og skildi. AFP
mbl.is