Kalt stríð Frakka og Svisslendinga

Á gönguskíðum fyrir ofan Dappes-bílastæðið.
Á gönguskíðum fyrir ofan Dappes-bílastæðið. AFP

Bílastæði á landamærum Frakklands og Sviss er orðið að milliríkjamáli þar sem bílastæðið, sem þjónar svissneskum skíðasvæðum, hefur verið lokað undanfarna mánuði vegna sóttvarnareglna í Frakklandi.

Stríðið um Dappes-bílastæðið er ískalt og hefur geisað í nokkrar vikur en stæðið, sem rúmar 650 bifreiðar, er í dalnum á milli La Dole-skíðasvæðisins í Sviss og Le Tuffes í Frakklandi. Bílastæðið er 250 metrum fyrir innan landamærin Frakklandsmegin.

Lokað vegna Covid-19.
Lokað vegna Covid-19. AFP

Svisslendingar hafa ekki lokað skíðasvæðunum þrátt fyrir Covid-19, ólíkt því sem er í nágrannaríkinu Frakklandi. En vegna þess að bílastæðið er lokað standa skíðalyfturnar í La Dole tómar þar sem ekki er hægt að leggja bílum á bílastæðinu. 

„Ég get ekki skilið hvernig frönsk yfirvöld geti ákveðið að Svisslendingar geti ekki skíðað í þeirra eign landi. Þetta er einhliða ákvörðun,“ segir yfirmaður ferðamála í Nyon-héraði í Sviss, Gérard Produit. „Okkur er haldið í gíslingu af stjórnmálum beggja ríkja,“ bætir hann við. 

Deilt er um Dappes-bílastæðið sem er Frakklandsmegin.
Deilt er um Dappes-bílastæðið sem er Frakklandsmegin. AFP

Yfirmaður Télé-Dôle skíðasambandsins, Patrick Freudiger, segir að frönsk yfirvöld hafi í þrígang fyrirskipað bann við notkun bílastæðisins og það nýjasta gildir til 3. febrúar.

Héraðsskrifstofan Frakklandsmegin í Júrafjöllunum segir að líkur séu á að fleiri en sex komi saman ef bílastæðið er opið en að hámarki mega sex koma saman á opinberum stöðum í landinu. Eins yrði um blöndun hópa að ræða og mikil hætta á dreifingu veirunnar.

AFP

Hvergi í Frakklandi er staðan jafn slæm á gjörgæsludeildum vegna Covid-19 og í Bourgogne-Franche-Comté og nýgengni hvergi hærri í Frakklandi en í Júrafjöllunum.

Freudiger er ósáttur við hvers vegna var ekki reynt að ná samkomulagi vegna bílastæðisins. Ekki dregur það úr reiði Svisslendinga að bílastæðið var allt tekið í gegn í fyrra og endurnýjað – þökk sé fjármagni frá Sviss sem hluti af verkefninu að búa til eftirsóknarvert skíðasvæði sem nær yfir landamæri. Freudiger er líka undrandi á því að ekki sé hægt að hafa stæðið opið þar sem bílastæði fyrir Frakka sem starfa í Sviss eru opin.

AFP

Télé-Dôle-skíðasambandið lagði fram tvær kærur á föstudag í héraðsdómi í Besançon vegna ástandsins. Þinghald hefst á mánudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert